Mömmuhópar – góðir eða slæmir?

Mömmuhópar – góðir eða slæmir?

Í vor las ég mjög áhugaverða lokaritgerð hjá nemanda í Félagsfræði við Háskóla Íslands. Ritgerðin fjallar um mömmuhópa og áhrif þeirra á mæður og líf þeirra. Ég fékk að spurja höfundinn, hana Heiðdísi Geirsdóttur, nokkurra spurninga í sambandi við ritgerðina hennar.

15033753_10154644999225912_1902585238_n

Eru svona hópar ekki bara líklegir til að skapa togstreitu, pirring og drama milli mæðra?

Mömmuhópar geta bæði haft mjög jákvæð og mjög neikvæð áhrif á líðan mæðra. En jú spenna og drama milli mæðra getur verið einn af þessum neikvæðu þáttum. Mæður bera sig mjög mikið saman, „hvernig er þitt barn að sofa“, „hvernig er þitt barn að borða“ og annað í þessum dúr. Ef þínu barni vegnar ekki eins vel og börnum hinna kvennana eða ef þau eru ekki búin að ná þeim stað í þroska getur það skapað vanlíðan fyrir móðurina. Einnig getur drama komið til vegna mismunandi skoðana á hverju sem er sem tengist barninu, uppeldi og jafnvel meðgöngu. Ráð einnar konu geta verið fáránleg í augum annarra og því mikilvægt að muna að dæma ekki val annarra mæðra.

Hvað fannst mömmunum vera jákvætt við bumbu- eða mömmuhópa?

Það sem mæðrunum fannst einna helst jákvætt er stuðningurinn sem hópurinn veitir og er hann sérstaklega mikilvægur fyrir mæður með fyrsta barn. Það að einhver skilji hvað þú ert að ganga í gegnum, á sama tíma og þú er mjög mikilvægt og ekki endilega maki eða vinkonur sem geta veitt þann stuðning. Einnig fannst þeim gott að geta talað um barnið, uppeldið og annað sem tengist því að vera móðir án þess að „ónáða“ vinkonur eða fjölskyldu með endalausu tali um barnið og því sem tengist. Aðallega fannst mæðrunum mikilvægt að fá staðfestingu á því að þær væru að gera rétt, fylgjast með hvað aðrar mæður eru að gera og njóta sameiginlegrar reynslu og ræða um hana. Þessi stuðningur getur haft jákvæð og uppbyggjandi áhrif á sjálfsmynd mæðra, og ég tel að mæður með fyrsta barn njóti sérstaklega góðs af þessu.

Hvað fannst þeim vera neikvætt?

Það sem þeim fannst neikvætt við mömmuhópa var að þeir geta skapa öfundsýki og afbrýðisemi. Börn eru eins misjöfn og þau eru mörg og því samanburður milli þeirra ekki endilega raunhæfur þar sem þau geta verið mjög misjafnlega langt komin í þroska og getu þrátt fyrir að vera öll fædd í sama mánuði. Einnig geta þær sem eiga í erfiðleikum með að láta börnin sín borða eða sofa liðið eins og þær séu ekki að standa sig nógu vel, þó þær eru að gera sitt allra besta.

Er munur á milli yngri og eldri mæðra, þ.e. sem komnar eru yfir 30 ára, hvernig upplifun þær hafa?

Já ég myndi segja það. Þær sem eru eldri taka frekar öllu með vara sem sagt er inná svona hópum, þær leita frekar ráða til vinkvenna, mæðra eða annarra fjölskyldumeðlima. Þær sem yngri eru leita meira ráða í svona hópum og taka meira mark á mæðrunum þar inni. Ég tel að þetta geti stafað af því að þær sem eru yngri hafa oft á tíðum færri nákomna sér sem eiga ung börn og hafi því færri til að leita ráða hjá og deila reynslu sinni með.

Hvaða niðurstöður sýndi rannsókn þín hvað varðar sjálfsálit eða sjálfstraust mæðra sem tilheyra svona hóp? Og eins þeirra sem ekki tilheyra svona hóp?

Rannsóknin mín sýndi að mömmuhópar geta bæði haft jákvæð sem og neikvæð áhrif á sjálfsmynd og sjálfstraust mæðra. Það sem hefur styrkjandi áhrif er stuðningurinn sem hópurinn veitir, það að einhver skilji þig og þína reynslu er mikilvægt og hefur jákvæð áhirf á sjálfsmyndina. Að sjá hvað aðrar mæður eru að gera og sjá að þú ert að ganga í gegnum sömu hluti og aðrar mæður hefur jákvæð áhrif á sjálfstraustið sem móðir og þessi staðfesting á þú sért að gera rétt er mjög mikilvæg fyrir mæður með fyrsta barn.

Það sem hefur neikvæð áhirf á sjálfsmyndina er samanburðurinn, öfundsýkin og afbrýðisemin. Sumar hafa kost á að gera ýmislegt sem aðrar hafa ekki kost á, fara til útlanda, kaupa dýr barnaföt, og þetta getur skapað mikla vanlíðan. Einnig eru fjölskylduhagir mjög misjafnir, sumar eiga maka, aðrar ekki, sumar eiga foreldra sem aðstoða mikið og aðrar ekki. Það getur því verið mjög erfitt fyrir sumar mæður að sjá hvað þær hafa ekki. Svo hefur eins og kom fram hér áðan mikil áhrif að börn eru misjafnlega fljót að þroskast og ná að gera allskonar og það getur framkallað vanlíðan hjá mæðrunum og haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd þeirra og sjálfstraust sem mæður.

Hvaða ályktun dregur þú af mömmuhópum – eru þeir góðir eða slæmir?

Ég tel að mömmuhópar geti verið mjög góðir og slæmir á sama tíma. Fyrir sumar konur er upplifunin ekkert nema jákvæð og fyrir aðra er hún aðeins neikvæð. En fyrir flestar held ég að upplifunin sé að mestu leiti jákvæð. Konurnar sem tóku þátt í rannsókninni sögðu hópana einmitt fyrst og fremst jákvæða en það komi tímar þar sem þeir snúast upp í það að vera neikvæðir. Það er því mikilvægt að vera í svona hópum með opnu hugarfari, dæma ekki aðra og ákvarðanir þeirra þegar kemur að uppeldi, meðgöngu og öðru. Stuðningurinn er það sem er mikilvægast og að skilja að aðstæður mæðra eru ólíkar.

Ég þakka Heiðdísi kærlega fyrir að svara þessum spurningum og fyrir áhugasama er hægt að nálgast ritgerðina hér.

14632979_10211174788304670_3255155065553971427_n

Facebook Comments
Ásdís Geirsdóttir

Ásdís er þrítug þriggja barna móðir og íslenskufræðingur, forfallin handavinnukona, ljósmyndari og ástríðubakari. Hún heldur úti netversluninni Rammagull.is ásamt RÓ heklvörum á Facebook.