Meðgöngusykursýki og geðheilsan

Meðgöngusykursýki og geðheilsan

Fyrir rúmum tveimur vikum fékk ég símtal frá ljósmóðurinni minni sem sagði mér að samkvæmt blóðprufum væri ég með meðgöngusykursýki. Hún gaf mér tíma með hjúkrunarfræðingi sem fór yfir þetta og sagði mér í raun hvað væri æskilegt að borða og hvað ekki.  Þegar ég labbaði út frá henni get ég ekki sagt að geðheilsan mín hafi verið upp á marga fiska. Ég sá fyrir mér að næstu 29+ yrðu skelfilegar, ég mætti ekkert borða sem mér þætti gott og langaði í, að þegar cravings myndi láta á sér bera yrði það algjör martöð.  Fyrsta vikan var skelfileg enda ég með mikla ógleði og ælandi í tíma og ótíma. Vikuna eftir á var mér bent á hóp á facebook þar sem konur/stelpur með meðgöngusykursýki geta spurt og deilt ráðum. Guð sé lof fyrir þennan hóp!!

Ég fór að spyrjast fyrir um hvernig þetta væri eiginlega, hvort að þær myndu kippa út öllum sykri, ávöxtum og kolvetni (þessum vondu). En þá kom í ljós að það var alveg ótrúlega misjafnt hvað hækkaði blóðsykurinn hjá þeim. Sumar þurfa að sleppa öllu en alls ekki allar, þær sögðu mér að maður finndi þetta út með að mæla sig eftir hverja máltíð og aukalega ef maður væri að borða eitthvað nýtt á kvöldin. T.d. ákvað ég í gær að prófa að fá mér þunnbotna pizzu á Dominos, viðurkenni að ég var kannski ekkert sérlega dönnuð í skammtastærðum þar sem hálf pizzan hreinlega hvarf. Klukkutíma eftir að ég byrjaði að borða mældi ég mig og vitið menn það var allt í góðu með mælingarnar. Eins hef ég verið að borða svoltið af kartöflum í kvöldmat og allar mælingar hafa verið í góðu lagi. Ég passa auðvitað betur hvað ég set ofaní mig en er alls ekki að banna mér allt, nema að mælingar sýni að þetta sé að hækka blóðsykurinn hjá mér.

Mér fannst ég aðeins geta andað léttar og að þessi meðganga væri nú kannski ekki að fara að vera svo slæm. Það sem ég skil bara ekki er af hverju sú sem ég talaði við lét eins og ekkert mætti og ef ég myndi ætla að borða kartöflu ætti ég að sætta mig við hálfa, eða ef ég ætlaði að fá mér popp að borða kannski bara einn kaffibolla af poppi (sem er auðvitað langt frá því að vera hægt!). Af hverju sagði hún mér ekki bara að prófa mig áfram? Þetta er greinilega mjög persónubundið og alls ekkert eins hjá öllum.

Núna er ég byrjuð á þriðju vikunni að mæla mig, þarf að mæla mig 4-5 sinnum á dag og það venst alveg furðuvel, alls ekkert eins mikið mál og ég hélt.  Það sem er erfiðast þessa dagana er að geta ekki fengið mér nóa kroppið sem er til upp í skáp, en sit hér sátt með kiwi í bili.

Í lokin deili ég með ykkur mynd af litlu skottunni minni sem er að verða stóra systir, hún skilur ekki alveg þetta með að það sé barn í maganum á mömmu sinni en er mjög spennt fyrir ¨litla barninu¨ eins og hún segir.

 

 

 

Facebook Comments
Sylvía Haukdal Bryjnarsdóttir

Sylvía er 31 árs, gift Atla Björgvinssyni og saman eiga þau Önnu Hrafnhildi og Marín Helgu. Sylvía er menntaður pastry chef út Le Cordon Bleu og vinnur í Sætum Syndum. Hennar helstu áhugamál eru bakstur, ferðalög, snyrtivörur og útivera með fjölskyldunni.