Meðgöngujóga fyrir líkama og sál

Meðgöngujóga fyrir líkama og sál

Nú er mín þriðja meðganga nýafstaðin. Á öllum meðgöngunum mínum hef ég stundað meðgöngujóga sem ég held að eigi stóran þátt í því hversu vel meðgöngurnar mínar og fæðingarnar  hafa gengið.

Meðgöngujóga snýst um svo miklu meira en að gera jógaæfingar en í tímunum lærir maður öndun sem hefur stóra þátt í fæðingarferlinu. Fyrir mér voru þessir tímar minn tími til að gefa sjálfri mér og barninu alla mína athygli sem er mjög kærkomið þegar maður er búinn að vera í vinnunni allan daginn og hugsa um tvö börn þegar heim er komið.

 

 

Á þessari meðgöngu stundaði ég meðgöngujóga í Dans & Jóga Hjartastöðinni sem er staðsett í Skútuvogi 13a. Ég man þegar ég mætti í fyrsta tímann í byrjun janúar að mér fannst ég svo velkomin. Aðstaðan er einnig til fyrirmyndar og allt til alls; púðar, góðar dýnur, teppi, kubbar og þykkar dýnur sem notaðar eru í slökun. Þær Maggý og Bryndís eru með tímana, en ég var í meðgöngu- og mömmujóga hjá Maggý haustið 2014 og vorið 2015, og hef ég ekkert nema gott um þær að segja. Báðar eru þær góðir kennarar með ótrúlega góða og hlýja nærveru og hika ekki við að koma með alls konar góð ráð varðandi meðgönguna og fæðinguna. Tímarnir einkennast því ekki einungis á jógaæfingum heldur eru þær þarna til að styðja og leiðbeina manni í gegnum þetta dásamlega ferli sem meðgangan og fæðingin er.

 

Aðaláherslan í tímunum er öndunin, en hún skiptir miklu máli þegar kemur að fæðingunni sjálfri. Með henni næst góð tenging við innri vitund. Fyrir mér skipti öndunin öllu máli og gaf mér ákveðna tilfinningu fyrir því að ég hefði góða stjórn á líkamanum, veitti mér ró og kippti mér aftur inn í núvitundina og það verkefni sem ég væri að takast á við í fæðingunni. Eftir alla jógatímana er þessi öndun orðin svo eðlileg þegar maður þarf á henni að halda.

 

Meðgöngujóga í Dans & Jóga Hjartastöðinni er kennt fjórum sinnum í viku, tvisvar í viku í hádeginu og tvisvar í viku á kvöldin. Hér má sjá allar helstu upplýsingar um námskeiðið og skráningu en greitt er fyrir einn mánuð í senn. Innifalið í mánaðarkortinu er aðgangur að öllum opnum jóga og zumbatímum í Hjartastöðinni.

 

Að lokum langar mig að nefna að meðgöngujóga er algjörlega fyrir alla; sama þótt þú hafir aldrei stundað jóga áður eða æft íþróttir. Maður finnur að allar konur sem mæta í þessa tíma eru þarna á sínum eigin forsendum, engin að dæma aðra og engin keppni í gangi. Þetta er fyrst og fremst tími sem gefur manni tækifæri til að gefa sjálfri sér og barninu fulla athygli. Maður fylgir líkamanum algjörlega og engin gerir meira en hún treystir sér til.

 

Reynsla mín af meðgöngujóga í Hjartastöðinni er ekkert nema jákvæð. Það er bara eitthvað við það að mæta í þetta litla samfélag sem þessir tímar eru, eiga notalega og góða stund með sér og barninu sínu, hlustandi ljúfa tóna Grace og kynnast öðrum mæðrum sem eru að ganga í gegnum sama krefjandi og fallega tímabil og þú. Ég get hreinlega ekki beðið eftir að mæta í Mömmujóga í Hjartastöðina með litla molann minn fljótlega.

 

Facebook Comments
Ásdís Geirsdóttir

Ásdís er þrítug þriggja barna móðir og íslenskufræðingur, forfallin handavinnukona, ljósmyndari og ástríðubakari. Hún heldur úti netversluninni Rammagull.is ásamt RÓ heklvörum á Facebook.