Mæjorkasnilld!

Mæjorkasnilld!

Í lok ágúst fórum við 3 pör ásamt börnum öll fædd sama ár í 12 daga ferð til Mallorca.

það er óhætt að segja að ferðin hafi slegið rækilega í gegn! Bæði hjá börnum og fullorðnum.

 

Gamla mýtan að það sé erfitt og ekkert frí að fara með ung börn ( þriggja ára) erlendis er alls ekki okkar upplifun.
Við völdum áfangastaðinn nánast eingöngu útfrá hóteli, við vildum að það væri næg afþreying í boði fyrir börnin, skemmtileg leiksvæði og stutt á ströndina.
Við enduðum á að velja Zafiro Tropic Hotel sem er komið vel til ára sinna en gríðarlega vel við haldið, allt mjög hreint og fínt, margar sundlaugar í boði ásamt barnalaug og barnaleikvelli. Slökunarsvæði var í boði fyrir fullorðna fólkið í dásamlegum Balirúmum og öll þjónusta á hótelinu til fyrirmyndar!

Í fyrsta lagi var ekkert mál að ferðast með börnin, hvorki í flugvél né í bíl og hafa má í huga að við máttum keyra 6 tíma deginum áður frá Húsavík til Reykjavíkur og því má segja að þetta hafi verið 2 sólarhringa ferðalag. Af þremur börnum voru tvö að fara í flugvél í fyrsta skipti.

Og í öðru lagi höfum við aldrei þurft jafn lítið að hafa fyrir börnunum.  Við vöknuðum í rólegheitunum, borðuðum morgunmat og svo fengu börnin bara að velja, ströndin eða sundlaugin.

Við gerðum samt ýmislegt annað, svosem heimsóttum dýragarð, fórum á sædýrasafn og í skoðunarferðir, sem hefði í rauninni verið alveg óþarft þar sem börnin undu sér langbest með fötur og dót í sandinum eða buslandi í lauginni á hótelinu.

 

Helstu kostir Mæjorka að okkar mati:
Mjög stuttar vegalengdir, við lentum í Palma og vorum á hóteli í Alcudia sem er hinum megin á eyjunni og það tók okkur innan við klukkutíma að keyra þangað.

Lítið mál að keyra sjálfur, við tókum öll sitthvorn bílaleigubílinn og það er ekki hægt að mæla nógu mikið með því! Maður er mjög frjáls ferða sinna, ekkert leigubíla- eða bílstólavesen og ótrúlega þægilegt að geta tekið smá siestu á rúntinum.

Í Palma er ein stór verslunarmiðstöð og í gamla bænum þar er líka hægt að versla, og öll merkin sem Íslendingar elska eru á staðnum!

Næg afþreying í boði fyrir allan aldur, svo sem Gokart,vatnsleikjagarðar,dýragarðar,sædýrasafn,hellaferðir og aðrar skoðunarferðir.
Fjölskyldufólki eins og okkur var allsstaðar mjög vel tekið og aldrei nokkurn tímann vorum við hrædd um börnin okkar eins og maður upplifir gjarnan þegar maður er á ókunnugum stað.

Flugvöllurinn í Palma er sá barnvænasti sem við höfum séð! Það eru leiksvæði í hverju horni og nánast við hvert hlið svo að þeim leiddist aldrei biðin og skemmtu sér konunglega á meðan beðið var eftir check-in og brottför.

Veðrið var fullkomið fyrir börnin. Við dvöldum frá 31.ágúst til 11.september og hitastigið var í kringum 25gráður, sól alla daga en aðeins farið að hausta síðustu dagana okkar.

Það besta við ferðina var að allir náðu að núllstilla sig, njóta frísins í botn og síminn var nánast ekki tekinn upp! Til marks um það hversu frábær ferðin var, þá eru myndirnar hér að ofan þær einu sem voru teknar alla ferðina 🙂
Við getum ekki mælt nógu mikið með fjölskylduferð til Mæjorka! 

 

 

 

Facebook Comments
Ásta Hermannsdóttir

Ásta er 32ja ára búsett á Húsavík í sambúð með Herði Inga en saman eiga þau einn son, Ríkharð Val tæplega 3ja ára ásamt Pug-hundinum Buddha. Er menntuð snyrti- og förðunarmeistari, lauk Bs prófi í næringarfræði árið 2014 og er að ljúka Ms gráðu í matvælafræði. Ásta hefur áhuga á öllu sem tengist húð- og snyrtivörum, heimilinu, uppskriftum og góðum mat, næringu og heilsu ásamt foreldrahlutverkinu.