Lýgurðu að barninu þínu?

Lýgurðu að barninu þínu?

Fyrir um ári síðan birti ég færslu á bloggi sem ég var þá partur af, færslan hét “Lýgurðu að barninu þínu?”. Eftir að ég birti færsluna setti ég link á hana inn á „mömmu hóp“ á Facebook og kommentin létu ekki á sér standa, lang flestar mæðurnar í hópnum voru svo sannarlega ekki sammála þessari færslu minni og skrifuðu komment til að réttlæta fyrir sjálfri sér að það væri allt í lagi að segja barninu stundum ósatt.

Núna um ári síðan er allt í einu orðin mikil vitundarvakning um RIE/Mindful parenting uppeldisaðferðirnar hér á landi, þökk sé Kristínu Mariellu sem ég fylgist spennt með á snapchat (@Kmariella) og þigg þar endalaust af fræðslu um RIE. RIE hentar mjög vel mínum viðhorfum í lífinu enda hef ég sjálf verið í mikilli og djúpri andlegri sjálfsskoðun undanfarin 6-7 ár.

Í ljósi aukinnar umfjöllunar um RIE má ég til með að endurbirta þessa grein mína því ég er enn sömu skoðunar og þegar ég skrifaði hana í fyrra og finnst greinin tóna mjög vel við RIE, þótt ég hafi ekki vitað hvað RIE var þegar hún var skrifuð.

Ég er mikið að velta barnauppeldi fyrir mér þessa dagana. Eða ekki bara „þessa dagana“ því ég var byrjuð að spá í barnauppeldi löngu áður en ég var ólétt. Dóttir mín er ný orðin 1. árs (er í dag þegar ég endurbirti greinina er hún að verða 2 ára) og ég finn betur og betur með hverjum deginum sem líður hvað það að ala upp barn er vandasamt verk og fylgir mikil ábyrgð. Ég hef nefnilega það markmið að senda hana út í lífið með heilbrigð viðhorf og sterka sjálfsmynd.

Eitt af því sem ég velti fyrir mér núna eru „hvítar lygar“, ef það er eitthvað til sem heitir það. Eru lygar ekki alltaf lygar? Við (eða amk. ég) viljum kenna börnunum okkar að það eigi ekki að ljúga. En til þess þurfum við foreldrarnir, þeirra helstu fyrirmyndir að sýna gott fordæmi og vanda okkur að grípa ekki til tilgangslausra lyga.

Sem dæmi um „hvítar lygar“ hef ég svo oft heyrt foreldra segja við börnin sín eitthvað á borð við „kexið er búið“. En kexið er ekki búið, það er bara ekki í boði fyrir barnið að gúffa í sig meira kexi það augnablik. En hvers vegna ekki bara að segja barninu það – að það sé ekki í boði að fá meira kex?
Barnið skilur vel þau skýru skilaboð 
„það er ekki í boði að fá meira kex“, það er að segja ef staðið er við það sem sagt er. Börn eru svo klár og þau sjá oft og vita ef verið er að segja ósatt og kexið er ekki búið þótt mamma og pabbi segja það. Þau þurfa bara suða nógu mikið og þá teygja foreldrarnir sig í kexpakkann upp í skáp og næla í meira af „búna“ kexinu og rétta barninu því þau nenna ekki að hlusta á meira suð. Með því fær barnið umbun fyrir allt suðið. Keðjuverkun fer í gang og barnið leikur sama leik næst.
Það er mögulega smá stríð í fyrstu skiptin sem mörkin eru sett og foreldrar segja að eitthvað sé ekki í boði, en ef þau mörk standa og ekki er vikið frá þeim þegar barnið suðar, lærir það mjög fljótt að það þýðir ekkert að suða.

Börn eru nefnilega miklu klárari en við höldum og með svona óþarfa lygum erum við að kenna þeim að það megi ljúga “stundum” og um leið að gera okkur sjálf ótrúverðug.

Takk fyrir að gefa ykkur tíma til að lesa. Ég má til með að setja link á svipaða grein sem ég rakst á hérna (smelltu hér) og veitti mér kjark í að endurbirta þessa grein þrátt fyrir mörg erfið komment sem ég fékk síðast þegar hún var birt.

Facebook Comments
Bára Ragnhildardóttir

Bára er 31 árs, er trúlofuð Richard Ottó O'Brien og saman eiga þau Ragnhildi Söru 3 ára og chihuahua hundinn Ronju. Bára vinnur sem verkefnastjóri og áhugamálin hennar eru allt sem viðkemur barnauppeldi, innanhúshönnun og heimilinu, DIY verkefnum og tísku