Lussebullar – Hinir sænsku Lúsíusnúðar

Lussebullar – Hinir sænsku Lúsíusnúðar

Lúsíuhátíðin verður haldin hátíðleg hér (í Svíþjóð) um allt land á morgun. Þar sem ég ólst að hluta til upp í Svíþjóð er hátíðin mér afar kær og ég hlakka mikið til að börnin mín upplifi þessa skemmtilegu hefð. Mér finnst þetta svo fallegt og skemmtilegt að ég er að hugsa um að hjóla ein út í kirkju annað kvöld og fylgjast með lúsíuathöfninni, til að fá stemninguna beint í æð.

En svo tilheyra hátíðinni að sjálfsögðu piparkökur, lúsíubollur og glögg. En á öllum betri kaffihúsum fara lúsíubakkelsi að skjóta upp kollinum uppúr miðjum nóvember. Svíarnir eru duglegir að spreyta sig á mismunandi bakkelsi sem inniheldur saffran, en það er aðal-jólakrydd Svíþjóðar. Það er einmitt bragðið sem gerir lúsíubakkelsin svona gómsæt. Þegar ég bjó hér síðast fyrir rúmum 16 árum síðan voru það bara hefðbundin lúsíubrauð (Lussekatter) með rúsínum sem voru á boðstólum. En mér sýnist lúsíusnúðar verða æ algengari og jafnvel eins og þeir séu að taka yfirhöndina, fram yfir lúsíubrauðin. Ég varð því að svala forvitni minni og prófa að baka þessa dásemd fyrir lúsíuhátíðina í ár. Mig langar að deila með ykkur uppskriftinni hér að neðan. Athugið að þetta er frekar lítil uppskrift.

100 g smjör

2,5 dl mjólk

25 g ferskt ger eða 2,5 tsk þurrger

1 dl sykur

1 egg

1 tsk vanillusykur

0,5 tsk salt

6-7 dl hveiti

0,5 g saffran + 1 tsk sykur

Bræðið smjör við vægan hita í potti, bætið mjólkinni við og hitið blönduna að 37°C. Setjið gerið útí, ásamt sykrinum og látið standa. Hrærið saman hveiti, vanillusykri og salti í stóra skál. Myljið saffranið og 1 tsk af sykri saman í morteli og bætið því síðan saman við hveitiblönduna. Þá má bæta mjólkur- og smjörblöndunni saman við ásamt egginu. Hnoðið deigið vel, það á að vera aðeins klístrað. Látið hefast undir viskustykki í 1-2 klst.

img_3690

Þegar deigið er búið að hefast, er gott að skipta því í þrjá helminga. Hver helmingur er svo flattur út.

Fylling:

100 g mjúkt smjör

1 dl sykur

2 msk vanillusykur

Öllu blandað saman.

Smyrjið fyllingunni á útflatt deigið. Skerið með pizzuskera:

img_3693

Síðan rúllar maður saman hverri einingu.

img_3694

Þá þarf að vefja hverja lengju saman í hálfgerðan snúð. Það er auðvitað best að nota bökunarpappír undir snúðana, ég átti hann bara ekki til. Látið hefast á plötunni í 20 mínútur.

img_3698

Ofan á snúðana á svo að fara:

1 egg + 1 msk mjólk pískað saman, til að pensla

rúsínur

perlusykur

Bakið að lokum snúðana við 225°C í 6-8 mínútur.

img_3699

img_3704

img_3715

Ekki skemmir fyrir hvað þeir eru jólalegir og fallegir á litinn 🙂

14915386_10211174787584652_4402657916124750078_n

Facebook Comments