Litlir atvinnumenn í drasldreifingu?

Litlir atvinnumenn í drasldreifingu?

Nú er orðið frekar langt um liðið síðan ég birti færslu. Skulum bara segja að janúar og febrúar eru ekki í uppáhaldi, helsti kosturinn við febrúar er auðvitað að sá mánuður er stuttur. Veðrið hefur verið kalt, grátt, blautt og vindasamt síðastliðna tvo mánuði. Því hefur fylgt mikil innivera.

En nú er kominn mars, sem er talinn vera vormánuður hér í Suður-Svíþjóð. Lítil sæt blóm eru farin að stinga sér upp úr moldinni og fuglasöngur heyrist inn um svefnherbergisgluggann á morgnana. Ég er kannski bjartsýn, en ég er búin að pakka niður snjógöllunum og kaupa strigaskó á krakkana. Tilbúin í vor og sumar!

Ég veit vel að það er allt á kafi heima á Íslandi og því enn nokkrar vikur í vor og sumar.  Þó það sé vel hægt að skella sér út að leika í snjónum, þá er maður óneitanlega meira inni með krakkana á veturna heldur en á sumrin, þá eru einnig veikindi líklegri til að kræla á sér. Ég er þó búin að komast að því að mikilli inniveru með börn fylgir ótrúlega mikið drasl. Leikföng og föt um öll gólf. Mylsnur, matarleifar, þvottur og uppvask. Ég vil meina að börn séu atvinnumenn í að dreifa úr sér og þá aðallega í að dreifa drasli. Fyrir ykkur sem enn bíðið eftir vori og sumri. Ókei, ég er alveg að ýkja, vorið er ekki alveg komið hér heldur, það eru 3°C úti og grátt veður úti. En ég er allavega með nokkur skotheld ráð við drasldreifingu litlu atvinnumannana, einkum nytsamlegt við inniveru um helgar eða á veikindadögum:

  • Gott er að hafa börnin fatalaus, þ.e. á nærbuxum eða bleyju einum fata. Þó þarf að muna eftir að hækka aðeins í ofnum. Börn sem eru einstaklega kulsækin geta verið í náttfötum allan sólarhringinn. Þetta sparar manni þvottavinnu, rafmagnskostnað og orku við tiltekt. Frábært ráð!
  • Nota spjaldtölvur, aðrar leikjatölvur og sjónvarp. Passa bara að hlaða allt á nóttunni. Með því að vera dugleg að nota þessi raftæki þá sparar maður sér tiltekt. Börnin hafa nefnilega lítinn áhuga á að leika sér með leikföngin sín ef þau komast í tæri við þessi tæki og nenna því ekki að dreifa leikföngum um alla íbúð.
  • Ekki gefa þeim að borða. Ef þau kvarta undan svengd má setja knippi af banönum fyrir framan þau. Ekkert uppvask er eftir bananaát og þeim fylgja ekki mylsnur. Þar sem börnin eru jú fatalaus er engin hætta á bananablettum í fötin. Svo má kenna krökkunum að fá sér vatnssopa úr krananum.

Gerist ekki einfaldara! Endilega bætið við ráðum fyrir neðan þessa færslu, mér og öðrum veitir örugglega ekkert af þeim.

Fyrir þá sem voru ekki með kveikt á ,,fattaranum” við lestur á þessari færslu, þá er auðvitað um grín að ræða.

Svona í lokin langar mig að koma með alvöru ráð. Nú eru 5 ár milli barnanna minna, auk þess eru börnin mín mjög ólík að öllu leiti. Í stuttu máli þá kemur þeim almennt ekki neitt voðalega vel saman, þó þau eigi vissulega alveg sínar góðu stundir. Stundum vill þó myndast ákveðin spenna á milli þeirra, sem getur verið erfitt að eiga við, bæði fyrir þau og foreldrana. En fyrir nokkrum vikum síðan addaði ég Kristínu Maríellu (kmariella) á Snapchat, en hún er stofnandi facebook hópanna Mæðra Tips! og RIE/Mindful Parenting á Íslandi. Á snapchat reikningi sínum gefur hún reglulega fylgjendum sínum svoköllað RIE tips. RIE er uppeldisstefna sem ég tel að hjálpi bæði foreldrum og börnum að skilja betur hvort annað og treysta hvoru öðru. Þetta hefur allavega hjálpað okkur, þó við séum ekki að fara 100% eftir öllu í stefnunni. Hver velur einfaldlega fyrir sig og sitt fólk hvað hentar þeim! Ég mæli með að þið kíkið á hópinn á facebook og addið @kmariella á snapchat, ef þið eruð foreldrar eða í samskiptum við börn í ykkar daglega lífi. Ömmur, afar, frænkur og frændar geta líka nýtt sér þetta, sem og starfsfólk skóla og leikskóla.

 

 

Facebook Comments