Litlar páskapavlovur með Nutellarjóma

Litlar páskapavlovur með Nutellarjóma

Ein af uppáhalds kökunum mínum er Pavlova og er hún yfirleitt á boðstólnum í afmælum á mínu heimili. Mér fannst því tilvalið að búa til litlar páskapavlovur, eða lítil hreiður, og ákvað að fylla þær með Nutellarjóma og litlum páskaeggjum. Gómsætur og fallegur eftirréttur á páskaborðið!

 

Lítil pavlovuhreiður

3 eggjahvítur

150 g sykur

2 tsk maizenamjöl

1/2 tsk hvítvínsedik

1/2 tsk vanilludropar

Stífþeytið eggjahvítur og bætið sykrinum hægt út í. Blandið maizenamjölinu, edikinu og vanilludropunum saman í skál og hellið saman við eggjasykursblönduna. Teiknið litla hringi (ca 8 cm í þvermál) á smjörpappír. Þessi uppskrift gefur ca 9 hringi. Sprautið blöndunni á með sprautupoka og mótið eins og hreiður, eða setjið á með skeið og búið til holu í miðjuna. Bakið í 60 mínútur við 150 gráður.

 

Nutellarjómi

1/2 l rjómi
1/2 tsk vanillusykur
1/3 bolli Nutella

Þeytið rjómann og blandið Nutella varlega saman við.

Þegar Pavlovurnar hafa kólnað alveg er Nutellarjóminn settur ofan í kökurnar og lítil páskaegg notuð til skrauts. Best er að geyma kökurnar í ísskáp þar til þær eru bornar fram.

 

Endilega fylgist með mér á Instagram.

Gleðilega páska!

 

 

 

Facebook Comments
Ásdís Geirsdóttir

Ásdís er þrítug þriggja barna móðir og íslenskufræðingur, forfallin handavinnukona, ljósmyndari og ástríðubakari. Hún heldur úti netversluninni Rammagull.is ásamt RÓ heklvörum á Facebook.