Kökupinnagleði

Kökupinnagleði

Æfingin skapar meistarann á sannarlega við í kökupinnagerð. Því langar mig að koma með nokkur góð ráð fyrir ykkur, svo þið gerið ekki sömu byrjendamistök og ég, ásamt því að sýna ykkur uppskriftina af þeim í máli og myndum.

Fyrst þarf að baka köku. Í raun er alveg sama hvernig köku þú bakar, hvort sem það er úr tilbúnu kökumixi eða þín uppáhalds skúffukökuuppskrift. Úr einni “venjulegri” uppskrift (sem er áætluð í tvö hringlaga form) fást ca. 40 kökupinnar. Þar sem ég var að gera 100 stk. bakaði ég skúffuköku í ofnskúffunni minni sem ég skipti svo niður í minni skálar.

Fyrst þarf að baka köku. Í raun er alveg sama hvernig köku þú bakar, hvort sem það er úr tilbúnu kökumixi eða þín uppáhalds skúffukökuuppskrift. Úr einni “venjulegri” uppskrift (sem er áætluð í tvö hringlaga form) fást ca. 40 kökupinnar. Þar sem ég var að gera 100 stk. bakaði ég skúffuköku í ofnskúffunni minni sem ég skipti svo niður í minni skálar.

Það er gott að baka kökuna daginn áður en þú ætlar að gera kökupinnana því hún þarf að kólna alveg áður en þú byrjar. Því næst er kakan sett í skál og mulin mjög smátt niður með gaffli. Passaðu að það séu engir stórir bitar.

Næst er kremi bætt saman við. Mér finnst best að nota Betty Crocker súkkulaðikrem. Hér kemur eitt mjög mikilvægt skref sem ég klikkaði á! Það er mjög mikilvægt að setja ekki of mikið krem saman við. Kökur geta innihaldið mismikinn raka og því þarf svolítið að prófa sig áfram með kremið.

Það er best að byrja á að setja 1 msk. af kremi saman við. Eins og þið sjáið á myndinni hér að ofan á deigið að vera orðinn einn stór klumpur. Prófaðu að búa til eina kúlu úr deiginu – ef það molnar í sundur er ekki nógu mikið krem en ef það festist við þig er of mikið krem. Ef það er of mikið krem geta kúlurnar dottið af kökupinnunum.

Mér finnst mjög gott að vigta allar kúlurnar svo þær séu allar jafn stórar – en það er alls ekki nauðsynlegt. Mín reynsla er að passa að þær séu ekki of stórar og því finnst mér 20 grömm passleg þyngd fyrir kökupinnakúlur. Kúlur eru gerðar úr öllu deiginu og þeim raðað á bökunarplötu/bakka klædda smjörpappír. Næst eru kúlurnar settar inn í ísskáp í 2-3 tíma eða fyrsti í 30 mínútur.

Þegar kúlurnar eru búnar að vera nógu lengi í kæli bræði ég súkkulaðihnappa (fást í Allt í köku). Í mínu tilfelli keypti ég dökkbláan og hvítan og blandaði nokkrum  bláum hnöppum saman við hvíta til að fá fallega bláan lit. Best er að bræða súkkulaðið í vatnsbaði en það er líka hægt að bræða það í örbylgjuofni – en þá þarf að passa að ofhita það ekki og aðeins hita í nokkrar sekúndur í einu og hræra á milli.

Kökupinnaprikunum (fást líka í Allt í köku) er síðan dýft um 1,5 cm ofan í súkkulaðibráðina og svo hálfa leið ofan í kökukúluna. Þá myndast lítill hnappur ofan á kúlunni. Hér er gott að skella kökupinnunum aftur í ísskápinn í um 10 mínútur. Síðan er þeim dýft alveg ofan í súkkulaðibráðina. Mér finnst gott að vera með nokkuð djúpa skál svo hægt sé að dýfa kúlunni vel ofan í. Því næst er pinnanum haldið þannig að hann halli örlítið upp á við og á meðan er honum snúið með fingrunum. Þá ætti allt aukasúkkulaði að renna af.

Að lokum eru kökupinnarnir settir á smjörpappír þar sem súkkulaðið fær að þorna alveg.

Þrátt fyrir hversu mikið dúllerí felst í kökupinnagerð er það alveg þess virði að búa þá til.
Þeir eru ekki bara góðir á bragðið heldur sérlega fallegir fyrir augað og eru hin fínasta borðskreyting!

Facebook Comments
Ásdís Geirsdóttir

Ásdís er þrítug þriggja barna móðir og íslenskufræðingur, forfallin handavinnukona, ljósmyndari og ástríðubakari. Hún heldur úti netversluninni Rammagull.is ásamt RÓ heklvörum á Facebook.