Kæra ólétta kona, þarftu ekki að fara að hvíla þig?

Kæra ólétta kona, þarftu ekki að fara að hvíla þig?

Ég er ein af þeim sem er alltaf að leika ofur konu. Ég er komin í ágætis þjálfun í því þar sem ég man ekki eftir mér öðruvísi en með alltof mikið á minni könnu, helst í fleiri en einni vinnu í einu, námi, í fimm saumaklúbbum ásamt því að halda heimilinu mínu fínu og vera sjálf sæmilega til fara… þið kannist kannski við týpuna.

Svo varð ég ólétt….

2d2a8019dauf

…og orkan fór að svíkja mig illilega! Ég var í fullri vinnu og fullu námi að klára meistaragráðuna mína og fannst ég hvergi getað minnkað við mig. (Enda haldin þeirri ranghugmynd að ég sé ómissandi). Það var ekki fyrr en ég var hætt að geta sofið á nóttunni sem ég ákvað í samráði við ljósmóðurina í mæðraverndinni að viðurkenna að þetta væri of mikið og ég myndi minnka vinnuna niður í 70%. Ljósan vildi reyndar að það yrði niður í 50% og skrifaði vottorð uppá það en ég ákvað að 70% væri nóg til að byrja með. Ég fór strax að geta sofið betur á nóttunni sem hafði þá jákvæðu keðjuverkun að ég mætti á „skikkanlegum“ tíma í vinnuna á morgnanna, gat þar af leiðandi hætt fyrr á daginn og fór heim og vann í lokaverkefninu mínu sem ég hafði ekki haft orku til að gera þegar ég var að vinna fram eftir.

2d2a8071bw

Á meðan á öllu þessu stóð var fólk að bauna á mig spurningum á borð við „hvenær ætlarðu að hætta að vinna?“, „ertu farin að minnka við þig vinnuna?“, „þarftu ekki að fara að hvíla þig“, „ertu ekki orðin þreytt“ eða „vá hvað þú ert þreytuleg!“.
Sem extra hormónafull og viðkvæm ólétt kona sem var illa sofin og undir miklu álagi fóru þessar spurningar hrikalega í mig. Ég varð uppstökk, skildi ekki hvað fólk þurfti endalaust að hafa skoðanir á því hvað ég væri þreytuleg og ég viðurkenni alveg að ég felldi tár yfir þessu heima á kvöldin.
Mér fannst eins og ég væri að bregðast einhverjum ef ég myndi minnka við mig vinnu, það að minnka vinnuna væri veikleika merki og að ég væri að gefast upp. Ég ætlaði sko ekki að vera einhver aumingi sem gæti ekki unnið því ég væri ólétt.

Á viku 30 skilaði ég lokaverkefninu mínu og á viku 37 var ég loksins komin á þann stað andlega að ég var tilbúin að leggja vinnuna til hliðar og fara að hlúa að sjálfri mér og undirbúa mig fyrir barnið sem var væntanlegt í heiminn. Þegar ég var búin að vera einn dag í veikindaleyfi fór allt af stað !!

Í fæðingunni sjálfri var ég svoooo þreytt að ég þráði ekkert heitar en að geta lagt mig aðeins á milli hríðanna og hugsaði stöðugt „af hverju hlustaði ég ekki þegar fólk var að segja mér að ég þyrfti að hvíla mig?“. Það var að sjálfsögðu ekkert í boði  að hvíla sig í miðri fæðingu og ég sá ekki fyrir endann á þessu svo ég bað um mænudeyfingu til að ég gæti þá kannski lagt mig aðeins áður en ég þyrfti að fara að rembast. Fæðingin gekk svo hratt að deyfingin var bara rétt farin að virka þegar ég fann að ég þurfti að rembast svo það varð engin hvíld í boði þá heldur.

Þegar litla nýfædda og undurfagra kraftaverkið manns er svo mætt í heiminn þá er nákvæmlega engin löngun til að leggja sig. Dóttir mín kom í heiminn kl 00.34 og ég svaf ekki í 10 mínútur þá nótt… og það var heldur enginn tími né löngun til að leggja sig þegar maður kom heim með barnið því þá langaði mann að taka á móti gestum og sýna litla undrið sitt.

2d2a8095

Þessi barátta við sjálfan mig og þörfina til að vera ómissandi ofurkona þegar ég á ekki orku til að standast þær kröfur sem ég geri, hefur kennt mér margt. Ég veit að fólkið sem spurði mig á meðgöngunni hvort ég þyrfti ekki að fara að hvíla mig var að segja þetta af hreinni umhyggjusemi en ekki afskiptasemi. Ég veit að enginn hugsar „djöfulsins aumingi“ þegar óléttar konur minnka við sig vinnuna og ég veit líka að maður fær ekki viðurkenningu fyrir að vera extra traustur starfsmaður ef maður vinnur fram á síðasta dag meðgöngunnar. Ég veit líka að kröfurnar sem ég geri á sjálfan mig eru óraunhæfar og ég myndi aldrei setja sömu kröfur á vinkonur mínar eða nokkurn annan.

Barnið mitt fæddist á viku 37 en ekki viku 41 eins og ég gerði ráð fyrir og meðganga og fæðing eru eins óútreiknanlegar og hugsast getur. Svo vonandi verð ég skynsamari næst.

Að lokum er ráðlegging mín til allra óléttra kvenna þarna úti – HVÍLDU ÞIG ! Það er glatað að vera þreyttur í fæðingu.

Myndirnar í færslunni eru eftir áhugaljósmyndarann Ólöfu Völu Sigurðar.

 

undirskrift

 

Facebook Comments
Bára Ragnhildardóttir

Bára er 31 árs, er trúlofuð Richard Ottó O'Brien og saman eiga þau Ragnhildi Söru 3 ára og chihuahua hundinn Ronju. Bára vinnur sem verkefnastjóri og áhugamálin hennar eru allt sem viðkemur barnauppeldi, innanhúshönnun og heimilinu, DIY verkefnum og tísku