Janúar búinn! Hvað tekur við?

Janúar búinn! Hvað tekur við?

Í janúar hafði maður ekki undan að lesa markmiðspósta, skipulagningar “perrarnir” fóru á flug og sennilega allir og amma þeirra með háleit markmið á nýju ári. Ekki misskilja mig, ég var klárlega í þessum hópi..með háleit markmið og ætlaði mér að sigra heiminn á 31 degi.

Í dag er 1.febrúar. Ég náði ekki öllum markmiðunum mínum í janúar, og það er bara allt í lagi! Ég náði þó þeim allra mikilvægustu sem ég setti mér og ég er mjög stolt af því, en til þess fékk ég dygga hjálp frá Sigurjóni Erni sem stappar stálinu í mig og stekkur til og hjálpar þegar ég kalla.

Ég er búin að setja mér markmið fyrir febrúar, þau eru alveg jafn háleit og þau sem ég setti fyrir janúar nema núna er ég búin að vera á beinu brautinni í þessar vikur og hausinn betur innstilltur heldur en hann var korteri eftir jól og ég varla búin að kyngja síðasta konfektmolanum!

Ég vinn 100%+ vinnu, þjálfa Crossfit, rek heimili og á barn og hund. Það er ss nóg af afsökunum í boði fyrir mig til að nota og geta sagt að ég hafi ekki tíma fyrir þetta eða hitt í sambandi við heilsuna, og það er alltaf auðveldast að nota afsakanirnar sem við höfum beint fyrir framan okkur í staðin fyrir að taka á honum stóra okkar og kýla þetta í gegn, fyrir okkur sjálfar!
Þegar ég hreyfi mig og borða vel þá hef ég meiri orku til að sinna verkefnunum sem bíða mín, ég sef betur og hvílist meira, húðin mín er betri, ég hef meiri orku til að gera eitthvað með fjölskyldunni og ég tala nú ekki um hvað andlega heilsan batnar!

Núna er meistaramánuður hafinn og margir nýta tækifærið og setja heilsuna ofar á listann sem er frábært, því að með heilsuna í lagi þá verður allt hitt sem bíður okkar svo miklu auðveldara! Hægt er að skrá sig til leiks í meistaramánuði HÉR og markmiðin geta að sjálfsögðu verið af hvaða tagi sem er 🙂

Þjálfarinn minn hann Sigurjón Ernir ætlar að gefa ykkur 3 góð ráð til að sigra meistaramánuð með glæsibrag!

1. Settu þér upp góða æfingaráætlun: Settu upp fjölbreytta og skemmtilega æfingaráætlun með æfingum sem þér þykir skemmtilegt að gera jafnt sem æfingar sem þér langar að bæta þig í.
2. Settu þér markmið: Ef við höfum eitthvað gott markmið fyrir framan okkur eru við mikið líklegri til að halda okkur við efnið og fara alla leið.
3. Hugaðu að gullna jafnvæginu: Hér er ég að tala um æfingar-mataræði-hvíld-vinnu/skóla og einka/fjölskyldulíf. Það þarf að vera gott jafnvægi milli þessara hluta til að allt gangi upp.
Að lokum langar mig að mæla með Snapchattinu hans Sigurjóns! Hann er endalaus uppspretta af fróðleik, skemmtilegum æfingum og góðum ráðum.

Facebook Comments
Ásta Hermannsdóttir

Ásta er 32ja ára búsett á Húsavík í sambúð með Herði Inga en saman eiga þau einn son, Ríkharð Val tæplega 3ja ára ásamt Pug-hundinum Buddha. Er menntuð snyrti- og förðunarmeistari, lauk Bs prófi í næringarfræði árið 2014 og er að ljúka Ms gráðu í matvælafræði. Ásta hefur áhuga á öllu sem tengist húð- og snyrtivörum, heimilinu, uppskriftum og góðum mat, næringu og heilsu ásamt foreldrahlutverkinu.