Hvernig líður barninu þínu?

Hvernig líður barninu þínu?

Leikskólinn hérna á Húsavík fylgir stefnu sem heitir Jákvæður agi. Ég hafði svo sem aldrei pælt mikið í þessu fyrr en að ég fór að taka eftir að hegðun sonar míns var farin að breytast til hins verra, sérstaklega heima fyrir og gagnvart mér.

Ég sendi tölvupóst á deildarstjórana til að forvitnast og var þá strax boðuð á fund til að ræða málin.

Ákveðið prógram var sett í gang, bæði til að hjálpa honum og ekki síst til að hjálpa okkur foreldrunum að takast á við aðstæðurnar þegar þær kæmu upp.

Eitt af því sem var mikið rætt á fundinum var það að börn á þessum aldri, tæplega 3ja ára kunna hvorki að lýsa né tjá tilfinningar sínar. Við fengum því ótrúlega einfalt “tæki” í hendurnar til að hjálpa Ríkharð að láta okkur vita hvernig honum líður og þannig getum við líka látið hann vita hvernig okkur foreldrunum líður.

***

20161109_101221

Þessar þrjár einföldu myndir sýna tilfinningarnar “reiður”, “leiður” og “glaður”. Þegar þær aðstæður koma upp að Ríkharð ræður ekki við tilfinningar sínar þá sæki ég myndirnar og bið hann að velja og sýna mér þannig hvernig honum líður. Oftast nær velur hann þann sem er glaður, en ef ekki þá ræðum við af hverju hann er leiður eða reiður og ég býð honum að taka líka þann sem er glaður ef hann skyldi vilja verða glaður seinna.

Þetta virkar svo ótrúlega vel að ég hefði aldrei trúað því, með þessum myndum getur Ríkharð lýst hvernig honum líður akkúrat þá stundina og við vinnum saman útfrá því. Hann hefur að sjálfsögðu allan rétt á að vera reiður og leiður við mann, en svona ræður hann betur við líðanina og við foreldrarnir líka.

Ég mæli 100% með því að prenta svona myndir út og prófa! Ótrúlega einfalt ráð til að fá ung börn til að segja til um hvernig þeim líður 🙂

undirskriftasta

Facebook Comments
Ásta Hermannsdóttir

Ásta er 32ja ára búsett á Húsavík í sambúð með Herði Inga en saman eiga þau einn son, Ríkharð Val tæplega 3ja ára ásamt Pug-hundinum Buddha. Er menntuð snyrti- og förðunarmeistari, lauk Bs prófi í næringarfræði árið 2014 og er að ljúka Ms gráðu í matvælafræði. Ásta hefur áhuga á öllu sem tengist húð- og snyrtivörum, heimilinu, uppskriftum og góðum mat, næringu og heilsu ásamt foreldrahlutverkinu.