Hvenær verð ég nógu góð?

Hvenær verð ég nógu góð?

Ég sit oft heilu tímana og dáist að stelpum pósta fallegum sjálfsmyndum af sér á Instagram. Þessar stelpur eru af öllum stærðum og gerðum, frá því að vera tvöfaldur heimsmeistari í Crossfit yfir í að vera “plus size” módel og óþekktur ferðalangur að birta bikinimyndir frá Costa Rika.

Á fullorðinsaldri hef ég bæði verið 65 kíló, 95 kíló og allt þar á milli, bæði í formi og engu formi.
Ég man svo greinilega eftir einu mómenti þegar ég var svo staðráðin í því að hamingjan kæmi þegar talan á stálklumpinum myndi detta niður fyrir 70 kg. Með blóði, svita og tárum kom ég blessaðri tölunni þangað og hvað gerist? Hamingjan datt að minnsta kosti ekkert ofan úr skýjunum á sama tíma og ég steig á vigtina!!
Hver er tilgangurinn með tuða þetta?

Ég er að verða 34ra ára gömul, ég er búin að ganga með barn sem breytti líkama mínum, ég stunda mjög reglulega heilsurækt og í heilsufarsskoðun vegna vinnu minnar komu allar mælingar tip top út.
Ég er hraust og heilbrigð, sterk og elska að hreyfa mig.

Af hverju í veröldinni get ég ekki verið ánægð með líkama minn? 
Af hverju ætla ég alltaf að verða hamingjusamari þegar “þetta” eða “hitt” er orðið einhvern veginn öðruvísi?
Af hverju fer ég ekki bara í nýja fallega bolinn minn sem er þröngur og rokka hann í staðin fyrir að draga mig niður og segjast ætla að nota hann “þegar ég verð orðin mjó”?
Af hverju pósta ég ekki bara myndinni á Instagram og er líka stolt af sjálfri mér?

 

Ég veit fyrir víst að ég er ekki sú eina sem hugsar svona og lætur þessar hugsanir stoppa sig í að njóta lífsins til fulls og ég er staðráðin í að breyta mínum hugsunarhætti hér og nú! Það tekur pottþétt vikur og mánuði og það er allt í lagi, svo lengi sem það takist að eins miklu leyti og hægt er.

 

Facebook Comments
Ásta Hermannsdóttir

Ásta er 32ja ára búsett á Húsavík í sambúð með Herði Inga en saman eiga þau einn son, Ríkharð Val tæplega 3ja ára ásamt Pug-hundinum Buddha. Er menntuð snyrti- og förðunarmeistari, lauk Bs prófi í næringarfræði árið 2014 og er að ljúka Ms gráðu í matvælafræði. Ásta hefur áhuga á öllu sem tengist húð- og snyrtivörum, heimilinu, uppskriftum og góðum mat, næringu og heilsu ásamt foreldrahlutverkinu.