Húðin og frostið!

Húðin og frostið!

Höfundur er menntaður snyrtimeistari

 

Mjög margir kannast við að húðin fari í klessu þegar veturinn og kuldinn gengur í garð! Einkenni sem margir upplifa er þurrari húð og þurrkublettir, roði og upphleypt húð, kláði og sviði. 

Undanfarið hef ég séð fjölmargar fyrirspurning á hópum á Facebook, umræður á Snapchat og almennt á kaffistofunni um hvaða húð viðkomandi sé slæm og hvað sé til ráða!

Ég gæti gefið ykkur 100 ráð og þessi færsla orðið endalaus, í staðin ætla ég að gefa ykkur MÍN topp 5 ráð til að halda húðinni góðri yfir vetrartímann (sem virka í rauninni allan ársins hring).

– Númer 1: Verja húðina! Þetta er það allra mikilvægasta sem við getum gert fyrir húðina okkar. Hvernig geri ég það? Með því að nota farða alla daga, alltaf!
Farðinn ver okkur fyrir áreiti,kulda,hita og mengun. Því minna áreiti sem húðin verður fyrir því minna þurfum við að hafa fyrir því að dekstra við hana 🙂
– Númer 2: Hreinsun. Þegar við notum farða á hverjum degi er gríðarlega mikilvægt að hreinsa húðina á kvöldin (og ég mæli alltaf með morgunhreinsun líka). Farðinn verndar húðina frá óhreinindum og fleiru en hreinsunin hreinsar öll þessi óhreinindi sem eru í farðanum og hafa komist í gegnum hann í burtu. Seinna skrefið í hreinsuninni er andlitsvatn sem mér finnst ómissandi til að róa húðina niður og loka henni.
– Númer 3: Djúphreinsun. Þegar húðin þornar þá er meira magn af dauðum húðfrumum á yfirborði hennar. Ef við djúphreinsum ekki húðina reglulega erum við að sóa kremunum okkar og möskunum á dauðu húðfrumurnar sem hjálpar okkur ekki neitt. Við þurfum að fjarlægja þessar dauðu húðfrumur, 2x-3x í viku (fer eftir húðgerð) og þá er auðveldara fyrir okkur að næra húðina.
Djúphreinsun eru skrúbbar og kornakrem, sýrur og peel off maskar til að nefna nokkrar tegundir 🙂
– Númer 4: Maski. Þegar við höfum fjarlægt allar dauðu húðfrumurnar er húðin gríðarlega móttækileg fyrir því sem fer á hana næst. Eftir djúphreinsun er því upplagt og mikilvægt að næra húðina vel og þá mæli ég alltaf með að setja á sig maska! Maskar innihalda mikið magn af virkum efnum fyrir húðina og næra hana dýpra heldur en kremin sem við notum daglega. Það fer eftir húðgerð hversu oft hún þolir að setja maska en ég mæli með jafnoft og hún er djúphreinsuð.
– Númer 5: Næring. Dagleg næring fyrir húðina er krúsjal til að viðhalda nærðri og fallegri húð. Það má alltaf reyna að bjarga sér með maska 1x í viku en ef húðin er ekki hreinsuð kvölds & morgna, nærð á hverjum degi og varin þá erum við alltaf að troða marvaða í djúpu lauginni!
Notið húðvörur sem henta YKKAR húðgerð, fáið ráðleggingar frá fagfólki um hvað hentar og munið, MUNIÐ að það getur tekið húðina 4-6 vikur að endurnýja sig og þá jafnlangann tíma til að leiðrétta sig og fyrir vörurnar sem við setjum á hana að virka 🙂

Lykillinn að fallegri og vel nærðri húð er sem sagt stöðugleiki í að hugsa um hana!!

Ekki hika við að senda á mig spurningar sem kunna að vakna! Ég svara bæði í gegnum Facebook síðuna okkar og svo má alltaf senda mér email: asta@ynjur.is

Að lokum mæli ég að sjálfsögðu með að fylgja okkur á Instagram og Snapchat! Notendanafnið okkar er ynjur.is á báðum stöðum!

 

Facebook Comments
Ásta Hermannsdóttir

Ásta er 32ja ára búsett á Húsavík í sambúð með Herði Inga en saman eiga þau einn son, Ríkharð Val tæplega 3ja ára ásamt Pug-hundinum Buddha. Er menntuð snyrti- og förðunarmeistari, lauk Bs prófi í næringarfræði árið 2014 og er að ljúka Ms gráðu í matvælafræði. Ásta hefur áhuga á öllu sem tengist húð- og snyrtivörum, heimilinu, uppskriftum og góðum mat, næringu og heilsu ásamt foreldrahlutverkinu.