Hrukkur og baugar! Hver kannast ekki við það?!

Hrukkur og baugar! Hver kannast ekki við það?!

Það er þetta með húðina okkar..mig grunar að ansi margar konur (ég tala bara um konur, þar sem þær eru í miklum meirihluta þeirra sem lesa færslurnar mínar) muni kannast við lýsingarnar sem koma hér að neðan.

Ég vaknaði einn morguninn, u.þ.b. korteri eftir að ég varð þrítug og tók allt í einu eftir því hvað mér fannst húðin á mér breytt!
Mér fannst ég ekkert nema hrukkurnar, baugar niður á kinnar og augnlokin sigin. Þetta er kannski full dramatískt, ég veit, en ég upplifði þetta nokkurn veginn svona samt sem áður.

Hvað gerist í húðinni þegar við eldumst?
Upp úr 25 ára aldri, auðvitað er það misjafnt milli manna, byrjar húðin okkar að eldast. Húðfrumurnar hægja smám saman á starfsemi sinni, bæði kollagen og elastín minnkar í húðinni (það tryggir húðinni teygjanleika og sveigjanleika) ásamt því að endurnýjun húðfruma hægist.
Þetta gerist mishratt og -snemma, sumar konur taka eftir broslínum í kringum augun fljótlega eftir tvítugt en aðrar eru sléttar fram yfir fertugt!
(Þessi lýsing er auðvitað mjög mikil einföldun, en segir á mannamáli hvað er að gerast)

Hvaða húðvörur á þá eiginlega að nota eftir þrítugt?
Ég mæli alltaf með að eftir að 25 ára aldrinum er náð sé gott að byrja að huga að húðvörum sem eru virkari en þessar týpísku rakagefandi og nærandi vörur eru. Að auki fer að bætast örlítið í safnið af vörum og húðrútínan fer að “flækjast” aðeins.

Augnkrem: Þetta er sú húðvara sem ég elska eiginlega mest! Augnkrem eru til með mismunandi virkni, sum taka bauga á meðan önnur eiga að draga úr fínum línum og eiginlega allt þar á milli. Fyrstu “hrukkurnar” eru oftast broslínur í kringum augun og/eða litlar þurrkulínur. Augnkrem er notað á sama tíma og dag-/næturkrem.

Serum: Serum eru oftast þunnur vökvi og kosta meira en krem. Serum innihalda meira magn af virkum efnum heldur en kremin, innihalda yfirleitt aldrei sólarvörn og hentar best að taka í kúrum og/eða nota fyrir nóttina.

Djúphreinsir: Til að tryggja að krem og maskar virki sem allra best þarf húðin að vera hrein og laus við dauðar húðfrumur á yfirborðinu. Djúphreinsir/skrúbbur hreinsar dauðar húðfrumur og er frábær undirbúningur áður en maski er settur á. Þessa húðvöru er hæfilegt að nota 2x í viku!

Þessar tvær línur frá Lancóme eru fullkomnar fyrir þær sem eru byrjaðar að finna fyrir öldrun húðarinnar!

Genefique er geggjuð byrjendalína, tekur á fyrstu einkennum öldrunar ásamt því að gefa ótrúlega góða næringu fyrir húðina. Augnkremið er í sérstöku uppáhaldi hjá mér og hafa ófáar krukkurnar klárast af því 🙂
Visionnaire er línan sem tekur við af Genefique, fyrir ca 35+ og þær sem eru farnar að finna meira fyrir öldrun húðarinnar og þurfa meiri virkni. Ég hef ekki prófað serumið en get 100% mælt með dag- og næturkreminu og auðvitað augnkreminu (ég er sökker fyrir augnkremum).

Ég elska að eldast og ef einn fylgi”kvillinn” sé að kaupa fleiri snyrtivörur til að viðhalda æskuljómanum (djók), þá langar mig að verða 100 ára!! Ég elska eldri konur með fullt af  hrukkum og hlakka til að verða gömul kona með hrukkótt andlit, en á meðan ég er ung þá má alltaf reyna að vera slétt og felld 😀

ps. Höfundur er Snyrtimeistari að mennt með sveinspróf og meistarapróf í faginu

Facebook Comments
Ásta Hermannsdóttir

Ásta er 32ja ára búsett á Húsavík í sambúð með Herði Inga en saman eiga þau einn son, Ríkharð Val tæplega 3ja ára ásamt Pug-hundinum Buddha. Er menntuð snyrti- og förðunarmeistari, lauk Bs prófi í næringarfræði árið 2014 og er að ljúka Ms gráðu í matvælafræði. Ásta hefur áhuga á öllu sem tengist húð- og snyrtivörum, heimilinu, uppskriftum og góðum mat, næringu og heilsu ásamt foreldrahlutverkinu.