Hreyfing – fyrir alla?

Hreyfing – fyrir alla?

Öll mín fullorðinsár hef ég reynt að stunda reglulega líkamsrækt af einhverju tagi. Þessi ár eru að vísu ekki mörg, enda nánast nýorðin fullorðin! Hvernig svo sem maður skilgreinir það að vera fullorðin. Það hefur svosem gengið misjafnlega vel, ég vil meina að ég hafi tekið góðar tarnir í hinni og þessari líkamsrækt. En tími og peningar eru óneitanlega tvennt sem hefur haldið aftur af mér hvað varðar daglega hreyfingu, jú og auðvitað löngunin. Ég lýg því ekkert að sum tímabil hef ég ekki verið í neinu stuði til að hreyfa mig, t.d. þegar ég hef verið ósofin með nýfætt barn, ólétt eða á kafi í próflestri.

Tveggja barna móðir í fullu námi hefur reyndar ekki mikinn tíma afgangs til þess að hreyfa sig, svona almennt. Þar spilar forgangsröðunin hins vegar inn í. Ef maður svo forgangsraðar þannig að líkamsrækt lendir ofarlega á listanum, heyrir maður stoltan mömmukór Íslands syngja ,,Þú ert að taka dýrmætan tíma frá barninu þínu, voðalega geturu verið sjálfselsk að fara á æfingu á sjálfum úlfatímanum (þ.e. milli 16-18 virka daga)”. Samviskubitið fer að naga mann að innan, við þekkjum þetta allar!

En þetta er allt spurning um vellíðan, styrk, þol og almenna heilsu. Það þurfa allir að hreyfa sig til að viðhalda góðri heilsu og formi. Það hefur örugglega ekki farið framhjá neinum miðað við áróður frétta- og samfélagsmiðla sem sýna hvað allir eru duglegir og glaðir í ræktinni sjö sinnum í viku. Gott dæmi um glansmyndina góðu!

img_3198

Það sem mér finnst skipta mestu máli er að maður hreyfi sig fyrir sjálfa sig og engan annan, nema kannski þá helst börnin sín. Þið vitið, glöð mamma – glöð börn. En fyrst og fremst þarf líkamsræktin að vera fyrir mann sjálfan, maður þarf að leyfa sjálfum sér að hugsa fallega og vel um líkamann sinn, við höfum bara einn. Það á ekki að snúast um að losa sig við aukakíló og að vera mjó (það er samt ekkert að því að vera með aukakíló eða að vera mjór, svo það sé á hreinu), heldur að líða vel, vera hraust og sterk.

Talandi um að vera sterk, það fer fátt meira í taugarnar á mér þegar einhver gefur í skyn að ég sé ekki nógu sterk til að gera eitthvað ákveðið og að það þurfi karlmann í verkið. Ekki láta ykkur detta slíkt í hug, nema kannski ef það á að flytja píanó. Það er bara fyrir þær/þá hörðustu!

Svo er það fullkomnunaráráttan sem á það til að læðast aftan að manni. Við þurfum ekki öll að vera afreksíþróttafólk. Það er til fólk sem vinnur við það, stendur sig ótrúlega vel og er landi og þjóð til sóma. Áfram Ísland! Við hin getum látið okkur duga að halda okkur í þokkalegu formi, ásamt því að standa á hliðarlínunni og hvetja áfram afreksíþróttafólkið okkar.

14915386_10211174787584652_4402657916124750078_n

 

Facebook Comments