Höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð fyrir ungabörn

Höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð fyrir ungabörn

Höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð er mjúkt og öruggt meðferðarform sem hentar ungabörnum einstaklega vel. Í meðferðinni er notuð þétt en létt snerting sem veitir barninu vellíðan og öryggi.

Höfuðbeina- og spjaldhryggjarkerfi eru þær himnur sem umlykja miðtaugakerfið og hafa beinfestu á höfuðbeinum og spjaldhrygg. Innan himnanna er mænuvökvinn sem nærir og ver miðtaugakerfið. Vegna taktfastrar hreyfingar mænuvökvans, sem talið er að orsakist vegna framleiðslu og frásogs hans, myndast hreyfing á þessum himnum. Þá hreyfingu er hægt að greina með snertingu hvar sem er á líkamanum. Þessi taktfasti sláttur í mænuvökvanum er um 6 – 12 slög á mínútu, en meðferðaraðilinn nemur taktinn hjá þeim sem þiggur meðferðina.

Vegna festinga himnanna við höfuð- og spjaldbein þjóna þessi bein mikilvægu hlutverki í umgjörð miðtaugakerfisins. Ef spjaldbeinið situr ekki rétt í mjaðmagrindinni, eða höfuðið liggur ekki nákvæmlega rétt á liðflötum efsta hálsliðar, má búast við röngu álagi í himnunum sem umlykja mænuna. Það getur valdið áreiti á allar taugar sem liggja út úr henni og getur valdið hinum ólíkustu einkennum, hvar sem er í líkamanum, því taugarnar þjóna honum öllum.

img_4062-2

Í fæðingu geta höfuðbeinin aflagast eða skekkst og mikið álag getur orðið á hryggjarliði hjá barninu sérstaklega ef barnið situr lengi í mjaðmagrindinni eða kemur skakkt niður. Hnakkabein geta aflagast á efsta hálslið við fæðingu en slík skekkja lagast ekki sjálfkrafa. Þessi spenna getur valdið áreiti á taugarnar og orsakað vanlíðan hjá barninu eins og magakrampa, bakflæði, spennu í höfði og baki. Þegar barn á erfitt með að snúa höfði í aðra áttina og sækir í að vera á annarri hliðinni er líklegt að hnakkabeinin hafi aflagast og því er meðferðin mjög gagnleg til að leiðrétta þær skekkjur sem fara að myndast t.d. á höfði ef barnið vill alltaf liggja á sömu hlið.

Spenna á þessu svæði getur einnig orsakað vandamál við sog og kyngingu hjá barninu og því er mikilvægt að losa um hana til þess að barnið geti tekið brjóstið rétt. Í mörgum tilfellum þegar móðir telur að hún sé ekki að mjólka næginlega mikið fyrir barnið sitt liggur vandamálið hjá barninu, það er að glíma við spennu í hálsi, munni og kjálkum og nær ekki að taka brjóstið rétt. Þegar barnið fær meðhöndlun og nær að losa um þessa spennu sem yfirleitt má rekja til fæðingarinnar eða legu í móðurkviði getur barnið opnað munninn betur og slakað á. Þegar barnið nær að taka brjóstið rétt örvar það framleiðsluna eins og það á að gera og móðirin framleiðir næga mjólk. Spenna í munni og hálsi hjá barninu getur lýst sér sem smellir í góm þegar barnið sýgur, barnið missir oft takið á geirvörtunni og er óvært á brjóstinu.

Með mjúkri snertingu í meðferðinni er losað um spennu í höfuðbeinum og spjaldhrygg sem veldur áreiti á taugakerfið auk þess að losa spennu í bandvef, vöðvum og innri líffærum eins og meltingarfærum. Meðferðin gagnast því einstaklega vel við magakveisu, bakflæði, meltingartruflunum og hægðavandamálum.

Þegar talað er um meðferð á börnum er einnig átt við fóstur í móðurkvið. Með því besta sem hægt er að gera fyrir móður og barn á meðgöngu er að veita þeim höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð. Það hjálpar þeim að líða vel, tengjast og ná djúpslökun. Höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð er einnig mjög góður undirbúningur fyrir fæðinguna og hægt er að nota hana í fæðingu til að slaka á spennu og minnka sársauka.

Fæðing er ekki einungis álag fyrir líkama móður og barns, hún hefur einnig mikil áhrif á andlega líðan. Erfið fæðingarreynsla eykur líkur á vanlíðan og þunglyndi hjá móður eftir fæðinguna og vandamálum tengd brjóstagjöf. Erfið fæðingarreynsla hjá ungabarni getur komið fram sem óværð, magakveisa og svefnvandamál.
Með höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð er hægt að vinna með erfiðar tilfinningar sem sitja eftir í líkama móður og barns eftir fæðinguna, en þær geta valdið tilfinningalegu ójafnvægi og vanlíðan. Í meðferðinni er notast við sálvefræna losun sem miðar að því að losa um tilfinningar sem sitja fastar í bandvef líkamans. Þannig er hægt að vinna úr erfiðri fæðingarreynslu sem getur skipt sköpun fyrir andlega heilsu móður og barns. Andleg og líkamleg vellíðan eftir fæðingu er grunnur að heilbrigðri tengslamyndun móður og barns og er því mjög mikilvægt að huga að þessum þáttum ef um erfiða fæðingarreynslu er að ræða.

img_4061

Ég vona að þessi grein sé upplýsandi um meðferðina og áhrif hennar. Ég kynntist höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð  fyrir 12 árum eftir fæðingu frumburðarins þegar ég leitaði aðstoðar með svefnvandamál og meðferðin hefur gagnast mér og börnum mínum þremur einstaklega vel frá fæðingu þeirra fram á unglingsár. Fyrir fjórum árum ákvað ég að læra meðferðina sjálf hjá Upledger stofuninni á Íslandi, þar sem hún gæti nýst mér vel í starfi sem fæðingardoula og ég tók einnig sérnámskeið í meðhöndlun barna og ungbarna. Það eru mikil forréttindi að fá að meðhöndla ungabörn og mæður þeirra og stuðla þannig að velferð þeirra og vellíðan um alla framtíð.

Lengi býr að fyrstu gerð!

undirskrift-bjargey

img_4060-2

Facebook Comments