Heimsborgari mánaðarins- Íslensk móðir í Suður-Afríku.

Heimsborgari mánaðarins- Íslensk móðir í Suður-Afríku.

Heimsborgari vikunnar er nýr og spennandi liður á ynjur.is þar sem forvitnast verður um íslenska foreldra búsetta erlendis.

Lilja Marteinsdóttir er búsett í Suður-Afríku ásamt fjölskyldu sinni, þar rekur hún sjálfboðaliðastarfið ,,Norður-Suður” ásamt því að sinna tveimur ungum börnum sínum.

Segðu okkur aðeins frá þér og þínum?

Ég er í sambandi með manni frá Suður-Afríku og saman eigum við tvö lítil börn, Benjamín þriggja ára og Indíu Lily eins og hálfs árs. Bæði eigum við svo 13 ára gömul börn, dóttur mína Ísafold Von og stjúpsoninn Jack. Svo má ekki gleyma hundinum okkar honum Archie!

 

 

Við hvað starfaru?

Ég var að vinna sem markaðsstjóri fyrir fyrirtæki í Cape Town áður en ég átti yngri börnin. Eftir að þau komu til sögunnar hef ég einbeitt mér að sjálfboðastarfinu og eftir að við settum ,,Norður Suður” á legg þá heldur það mér upptekinni.

Ég gæti svosem ekki beðið um betra starf!

Það er svo mikil þörf í fátækrahverfunum og að geta lagt að liði á þessum vettvangi, auk þess að bjóða öðrum að taka þátt í því starfi, er ómetanlegt.

Þið eruð búsett í Suður-Afríku, hvernig kom það til?

Áður en við komum hingað bjuggum við í Englandi. Árið 2008 fór ég í mastersnám til Englands og fékk svo vinnu að námi loknu. Eftir nokkur ár vorum við komin með nóg af rigningunni í Englandi og langaði að breyta til. Þar sem maðurinn minn er frá Suður-Afríku lá beint við að við mundum leggja land undir fót þangað. Vert er að taka það fram að þegar við pökkuðum ofan í ferðatöskur til þess að flytja til Cape Town, hafði hvorki ég né dóttir mín stigið fæti inn í landið áður. Þetta var alveg ný reynsla og algjört ævintýri.

Að flytja milli landa með einungis nokkrar ferðatöskur og byrja alveg upp á nýtt er samt aldrei auðvelt og það tekur tíma að aðlagast nýju landi og þjóð. Við erum búin að vera hérna í 4 ár núna.

Það er talsverð óánægja meðal Íslenskra foreldra með fæðingarorlofsgreiðslur á Íslandi, hvernig er fæðingarorlofi háttað í Suður-Afríku?

Við erum langt á eftir Norðurlöndunum þegar kemur að fæðingarorlofi. Samkvæmt lögum ber vinnuveitendum að gefa mæðrum fjóra mánuði í fæðingarorlof, launalaust. Margir vinnustaðir, en það á sérstaklega við hærri stöður, bjóða starfsfólki sínu greidd orlof en það er ekki sjálfgefið og er mismunandi eftir fyrirtækjum. Margar konur kjósa að vera heimavinnandi, sérstaklega ef þær eru með fleiri en eitt ungt barn.

Hvernig er með dagmömmu/leikskóla/grunnskóla?

Allir leikskólar eru einkareknir og hér er öll flóran af leikskólum í boði. Við erum rosalega heppin með leikskóla fyrir Benjamín. Ætli það séu ekki yfir 100 skólar í hverfinu okkar sem við gátum valið úr. Leikskólar hér eru ekki nærri því eins dýrir og t.d í Englandi.

Grunnskólamenntun hér er mjög góð, sérstaklega í kringum Cape Town þar sem við búum. Það er hægt að velja á milli ríkisrekinna skóla, sem eru frábærir hér í bænum okkar, og svo einkarekinna skóla sem geta verið alveg brjálæðislega dýrir. Það er eitthvað í boði fyrir alla! Ísafold er að fara byrja í Montessori skólakerfinu á næsta ári og við erum rosalega spennt fyrir því. Skólinn er staðsettur á vínekru hér í bænum og ekki hægt að biðja um betra umhverfi fyrir skóla! Suður Afríkubúar taka menntun mjög alvarlega.

Nú hefur Suður-Afríka slæmt orð á sér í sambandi við heimilisofbeldi og ofbeldi almennt, er það eitthvað sem þú hefur orðið vör við?

Þar sem er fátækt, þar eru glæpir. Við búum á einu öruggasta svæði Suður-Afríku, þrátt fyrir það þarf maður ávallt að vera varkár. Maður lærir bara að lifa með því og taka varúðarráðstafanir. Við erum með öryggiskerfi á húsinu og það eru vissir staðir sem maður forðast. Allt í allt hefur það þó ekki áhrif á mitt daglega líf. Maður les og heyrir mikið um innbrot og glæpi í umhverfinu, ég læt það oftast ekki á mig fá. Það þýðir ekkert að láta svoleiðis stoppa sig. Það er aðallega það að vera með ungling á heimilinu sem þráir frelsi og maður þarf að takmarka það, þar sem maður er alltaf með öryggið að leiðarljósi. Ég vinn mikið niður í fátækrahverfum og ferðast þar um óheft. Mér finnst ég örugg í mínu daglega lífi.

Er landið barnvænt?

Hér er yndislegt að vera með börn. Það er svo mikið ,,pláss” alls staðar. Við búum í húsi sem er með stórum garði og sundlaug, en hér er sumar og sól í 10 mánuði á ári. Við eyðum því mestum tíma okkar úti við.

Við erum umkringd vínekrum, ströndum og mörkuðum. Allir staðir miðast við að bjóða upp á barnvæn umhverfi. Hér förum við út að borða á 5 stjörnu veitingastöðum á vínekrum og börnin hlaupa um og skemmta sér á meðan. Margir veitingastaðir eru einnig með starfsmann sem sér einungis um að passa og leika við krakkana, svo fullorðna fólkið geti slakað á.

Það er einnig mikil BBQ menning hérna og hér hittast fjölskyldur allar helgar og grilla, fullorðnir og börn skemmta sér saman. Oftast hittist folk um hádegisbilið og nýtir svo allan daginn alveg fram á kvöld.

Ströndin er svo 5 mínutum frá okkur, þar er nær endalaus afþreying.

Okkur leiðist aldrei og það er ótakmarkað af afþreyingu að finna fyrir börn og fjölskyldur í kringum okkur sem kosta ekki annan handlegginn.

 

 

 Hvers saknið þið mest frá Íslandi?

Fjölskyldu og vina! Ég vildi að ég gæti flutt þau öll hingað til mín! Helsti ókosturinn við að búa hér er fjarlægðin frá Íslandi. Það er dýrt að ferðast heim í heimsókn með svona stóra fjölskyldu og það er ekki auðvelt fyrir fólk að skreppa yfir í heimsókn.

Á jólunum hugsa ég alltaf heim, það væri gaman að geta haldið jólin hátiðleg í snjó og kulda. Hér er hásumar í desember og við eyðum jólunum í sundlauginni og á ströndinni. Við eldum samt alltaf íslenskan jólamat. Ég get vel lifað af án alls annars hugsa ég.

 

 

Hverjir eru helstu kostir þess að búa í Suður-Afríku?

Veðurfarið! Veðurfarið hér er frábært allt árið um kring. Við fáum 10 mánuði af sumri og sól og veturnir eru stuttir og mildir.

Lífsstíllinn hér er engu líkur. Við búum í kringum 2000 vínekrur, vín er því ódýrt en það sama gildir um matinn. Við getum leyft okkur lífsstíl hér sem við gætum ekki fengið neins staðar annars staðar í heiminum. Lífið hér er líka afslappað, fólk kann virkilega að njóta lífsins og fjölskyldulífið er mikilvægt.

   

Hvaða tungumál eru töluð í Suður-Afríku?

Í Suður-Afríku eru 11 tungumál en þar sem við búum tala flestir afrikaans, xhosa eða ensku. Allir tala ensku samt þannig ég hef aldrei fundið þörf til þess að læra annað tungumál hér.

Eru börnin ykkar tvítyngd?

Ísafold talar ensku, afrikaans og íslensku. Ég reyni eins og ég get að halda íslenskunni lifandi á heimilinu en það er oft erfitt. Litlu börnin skilja íslenskuna þegar ég tala við þau en þau svara mér alltaf á ensku. Ég vona að þegar þau eldist þá styrkist íslenskan þeirra.

Þú rekur sjálfboðaliðastarf úti, segðu okkur aðeins frá því?

Þrátt fyrir allt það frábæra sem Suður-Afríka hefur upp á að bjóða, þá eru hér skuggahliðar. Hér er enn mikill aðskilnaður milli ríkra og fátækra og mikil fátækt einkennir líf margra hér. Fátækrahverfin eru byggð úr kofum þar sem fólk hefur takmarkað aðgengi að vatni, rafmagni og mat. Mikið atvinnuleysi ríkir og margir ná ekki að fæða og klæða börnin sín. Síðan við komum hingað hef ég verið viðloðandi mikið sjálfboðastarf niður í fátækrahverfunum. Við vinnum með litlu munaðarleysingjaheimili, nokkrum skólum og svo stöndum við fyrir litlu súpueldhúsi sem fæðir allt að 300 börn á dag sem annars væru án matar daglega. Fyrir ári síðan ákváðum við að byrja taka inn sjálfboðaliða frá Íslandi og annars staðar frá til þess að taka þátt í starfinu með okkur og styrkja það frekar. Endilega kíkið á heimasíðuna okkar www.nordursudur.org til þess að lesa meira um starfið okkar!

 Og að lokum, ef einhverjir eru áhugasamir um að flytja til Suður Afríku eftir lesturinn, hvernig ber maður sig að? 

Til þess að flytja til Suður-Afríku þarf að fá til þess gerða vegabréfsáritun. Útlendingaeftirlitið er alltaf að verða strangara og strangara en það eru alltaf leiðir inn. Auðveldast er, eins og í minni stöðu, að vera í sambandi með Suður-Afríkubúa. Annars er hægt að sækja um vinnuvegabréfsáritun og jafnvel ,,critical skills” áritun þar sem alltaf er vöntun á menntuðu fólki í vissa geira. Það er vel tekið á móti fólki með menntun og reynslu í mörg fyrirtæki í einkageiranum þótt flest ríkisfyrirtæki séu með jákvæða jafnréttisstefnu, þar sem þau leggja áherslu á að ráða bara Suður-Afríkubúa.

Það er risastórt samfélag af Evrópubúum hér í Cape Town, sérstaklega Hollendingar, Þjóðverjar og Englendingar, svo eru þónokkrar íslenskar fjölskyldur sem búa í Suður-Afríku.

Lilja heldur einnig úti opnum snapchat aðgangi: liljaom 

Ég þakka Lilju kærlega fyrir að leyfa okkur að skyggnast inn í spennandi líf hennar og fjölskyldu hennar.

Facebook Comments
Sólveig Ása Arnarsdóttir

Sólveig Ása er fædd, uppalin og búsett á Húsavík ásamt unnusta sínum Davíð Þórólfssyni og dóttir þeirra Kristínu Hebu , fædd í apríl 2014. Í september 2015 fjárfestu þau í íbúð sem hefur síðan þá verið rifin niður í fokhelt og vinna þau nú hörðum höndum að því að byggja upp drauma heimilið. Hennar helstu áhugamál eru uppeldi ,heimili og hönnun og ferðalög til fjarlægra landa.