Heimatilbúinn leir – Uppskrift

Heimatilbúinn leir – Uppskrift

Flotta herferðin sem Name it var að setja á laggirnar og Ásdís bloggaði um HÉR varð til þess að fá mig til að vera meira vakandi fyrir mikilvægi þess að leggja snjalltækin til hliðar og njóta með barninu sínu án raftækja.
Dóttir mín er búin að vera veik heima í alltof marga daga svo ég ákvað að slökkva aðeins á sjónvarpinu og bauð henni með mér í smá „föndur“ og öðruvísi leik en við erum í vanalega. Við bjuggum saman til heimatilbúinn leir.

Ég ætla að deila með ykkur uppskrift af leirnum, hún er passleg fyrir svona 3-4 börn til að leika með.

Heimatilbúinn leir – uppskrift

4 glös hveiti
1,5 glas fínt salt
1 msk olía
2 glös heitt vatn úr krananum

Þessu er öllu saman skellt í skál og hnoðað í kúlu. Það er gott að strá smá hveiti á borðið og hnoða þangað til leirinn hættir að vera klístraður. Ef hann molnar í sundur vantar örlítið meira af vatni.

Í dag átti ég rosalega lítið hveiti en notaði það sem eftir var og minnkaði uppskriftina niður í hlutföllum við það.

Ég geymi leirinn svo í zip-lock poka en það er líka gott að geyma hann í loftþéttu nestisboxi svo hann þorni ekki og eyðileggist strax.

Svo er bara að láta hugmyndaflugið ráða för og leira það sem manni dettur í hug. Það er td. hægt að kaupa ódýr „piparkökuform“ í dótadeildinni í Hagkaup og nota þau til að skera út karla og kerlingar, stjörnur, jólatré ofl.
Við notuðum bara það sem til var heima og var við hendina.

Ps. Ég var auðvitað með símann minn á lofti á meðan á þessu stóð og tók nokkrar myndir af ferlinu fyrir þessa færslu og setti líka inn á instagram @bara_87
En við munum leika meira með leirinn á næstu dögum og þá verður síminn auðvitað fjarri góðu gamni.

Facebook Comments
Bára Ragnhildardóttir

Bára er 31 árs, er trúlofuð Richard Ottó O'Brien og saman eiga þau Ragnhildi Söru 3 ára og chihuahua hundinn Ronju. Bára vinnur sem verkefnastjóri og áhugamálin hennar eru allt sem viðkemur barnauppeldi, innanhúshönnun og heimilinu, DIY verkefnum og tísku