Geta ekki allir eignast börn?

Geta ekki allir eignast börn?

Fyrir um það bil fimm árum síðan tókum ég og Atli þá ákvörðun að fara reyna við barneignir. Ég hafði ótrúlegar ranghugmyndir um hvernig þetta virkaði allt saman. Ég var alveg viss um að þetta tæki bara svona þrjá mánuði, kannski í mesta lagi sex. En því miður varð það ekki raunin.

Eftir meira en eitt ár í reyneríi með tilheyrandi egglosprófum og útreikningum var ég ekki orðin ólét. Hvernig gat það verið? Vorum við að gera eitthvað vitlaust?

Ég fór að kynna mér hver næstu skref yrðu og þá komu upp óteljandi upplýsingar um ófrjósemi, getuleysi, tæknisæðingar og glasafrjóvganir. Ég fékk risastóran hnút í magann og var fljót að loka tölvunni. Það gat bara ekki verið að eitthvað af þessu gæti átt við okkur. Ég pantaði tíma hjá sérfræðingi hjá Art Medica, við tóku alls konar skoðanir og rannsóknir. Ekkert fannst sem gat útskýrt þetta, nema þá kannski andleg ófrjósemi eins og læknirinn orðaði það. Í samráði við lækni ákváðum við að reyna aðeins lengur, við vorum að flytja til London eftir nokkra mánuði og ef til vill myndi eitthvað fara gerast þar, þegar maður færi að dreifa huganum.

Ekkert gerðist næsta árið og höfðum við þá aftur samband við sérfræðinginn. Næsta skref hjá okkur var að fara í tæknisæðingu þegar við kæmum heim til Íslands. Það versta og besta sem maður gerir er að fara að gúggla um þetta og lesa reynslusögur því maður verður enn stressaðari við að heyra þær slæmu, en fær von þegar maður les þær góðu.

Í byrjun ágúst 2014 byrjuðum við í meðferð við fyrstu tæknisæðingunni. Ég þurfti að sprauta mig á hverjum degi í einhverja daga og á meðan á því stóð fór ég reglulega í skoðanir til að sjá hvort að eggbúin væru að verða tilbúin. Að lokum tók ég síðustu sprautuna sem er kölluð egglossprauta, en svo var uppsetning tveimur dögum seinna.

Maðurinn minn á heiður skilið fyrir að hafa þolað mig á meðan þessu stóð. Hann var eins og klettur við hliðina á mér í gegnum skapofsaköstin, tárin og allt sem því fylgdi. Ég var ekki beint sú auðveldasta meðan á þessu stóð, enda tók þetta mikið á sálina. Ég man svo vel eftir því þegar ég sat við matarborðið að borða með Atla og vinafólki okkar eitt kvöldið, allt í einu þurfti ég að standa upp og fara inn á bað til þess að gráta. Ég hef ekki hugmynd um af hverju, en ég bara réð ekki við tilfinningar mínar. Oft kom það fyrir að ég reiddist Atla fyrir eitthvað sem var bara alls ekki honum að kenna. Stuðningurinn hans var ómetanlegur og ég get trúlega aldrei þakkað honum nógu vel.

Þessar tvær vikur sem maður er að bíða eftir að vita hvort þetta hafi tekist eru eins og margir mánuðir að líða. En loksins kom að deginum, það var sunnudagur. Ég fór óteljandi ferðir á klósettið til að athuga hvort að blæðingar hefði byrjað, en svo kom að því…. þær voru byrjaðar. Hnúturinn í maganum varð risa stór og tárin byrjuðu að renna. Besta ráðið sem ég fékk þann daginn var að gráta mikið, því ég mætti það alveg. Þetta væri sárt og best væri að fá góða útrás.

Daginn eftir hringdi ég niður á Art Medica og við tók meðferð í tæknisæðingu númer tvö. Við tók sama ferlið. Loks kom að uppsetningu, en hún var á laugardegi. við vorum á leið á árshátið um kvöldið sem var gott því ég náði aðeins að dreifa huganum og vera ekki með þetta fast í kollinum allan tímann. Ég var ekki byrjuð á blæðingum á fimmtudegi og ákvað því að taka þungunarprófið einum degi fyrr því Atli var á leið út á land. Ég vaknaði eldsnemma og pissaði á prófið. Tíminn á meðan ég var að bíða eftir niðurstöðunum var ansi lengi að líða, svo ætlaði ég aldrei að þora að kíkja á prófið. Það var ein sterk lína og ein aðeins daufari, ég hljóp inn í herbergi til Atla, kveikti ljósin og bað hann að athuga hvort ég væri nokkuð orðin klikkuð. Hann sá líka tvær línur! Ég hágrét, en í þetta skipti var það ekki út af vonbrigðum heldur ólýsanlegri gleði.

Eftir 40 vikur og 4 daga kom fullkomna litla stelpan okkar í heiminn.

falleg

Á þessum rúmlegu þremur árum sem þetta tók setti ég upp rosalega grímu þegar ég var spurð út í barneignir. Oftar en ekki sagði ég ,,Neihh, við erum ekkert farin að pæla í því, ætlum að klára að koma okkur fyrir” eða ,,Við ætlum að klára að mennta okkur”. Ég skammaðist mín fyrir eitthvað sem ég átti alls ekkert að skammast mín fyrir, þetta er miklu algengara en maður heldur. Ef við ákveðum að eignast annað barn einhvertímann ætla ég ekki að fela það ef það gengur ekki nógu vel. Ég ætla bara að svara hreinskilningslega þeim sem spurja, þó mér þyki alltaf jafn skrítið þegar fólk er að spurja hvenær maður ætli að eignast barn eða eitt barn í viðbót. Ég hvet fólk til þess að sýna tillitssemi og fara varlega í spurningar eins og þessar, þær geta reynst bæði erfiðar og sárar.

Eftir okkar reynslu fékk ég allt aðra sýn á barneiginir og hversu mikil kraftaverk börn eru. Því miður eru ekki allir eins heppnir og við vorum og þurfa að ganga í gegnum fleiri og miklu erfiðari meðferðir. Ég tek ofan af fyrir ykkur, þið eruð hetjur!

 

 

sylvia

Facebook Comments
Sylvía Haukdal Bryjnarsdóttir

Sylvía er 31 árs, gift Atla Björgvinssyni og saman eiga þau Önnu Hrafnhildi og Marín Helgu. Sylvía er menntaður pastry chef út Le Cordon Bleu og vinnur í Sætum Syndum. Hennar helstu áhugamál eru bakstur, ferðalög, snyrtivörur og útivera með fjölskyldunni.