Fyrsta barn vs. annað barn

Fyrsta barn vs. annað barn

Flestir hafa heyrt talað um það að maður verði afslappaðri sem foreldri með hverju barni sem maður bætir við skarann sinn. Þetta á 100% við í mínu tilfelli. Ég held jafnvel að ég hafi tekið þetta á hærra plan, ef svo má að orði komast. Það er nefnilega himinn og haf á milli þess hvernig fyrstu aldursárin í lífi barnanna minna hafa verið. Er ég að gera upp á milli barnanna minna? Nei alls ekki,  ég vil meina að þetta sé bara ég sem hef þroskast sem foreldri.

Ég var gífurlega stressuð varðandi allt sem tengdist frumburðinum. Til að vera viss um að mistakast ekki sem foreldri, var allt gert eftir bókinni. Þegar barnið var 2 mánaða fannst mér ég þurfa koma barninu í rútínu varðandi svefninn. Hvað gerði ég? Jújú eins og allir mundu gera væntanlega? Ég teiknaði upp svona svefnskífur fyrir hvern einasta dag. Þær voru í lit og allt. Þeir sem hafa lesið bókina Draumaland eftir Örnu Skúladóttur skilja hvaða skífur ég er að tala um. En á skífunum semsagt kom fram hvenær barnið var vakandi, hvenær það svaf, hvenær það fékk hreina bleyju, hvenær það drakk úr hægra brjósti og hvenær það drakk úr því vinstra. Hringja einhverjar bjöllur hjá ykkur? Þið getið rétt ímyndað ykkur. Barnið mátti varla prumpa, þá var ég viss um að hann væri kominn með í magann. Ef hann vildi ekki borða var ég viss um að hann væri að verða veikur. Allar máltíðir voru útpældar, oftast heimaeldaðar og sykurlausar til 3 ára aldurs. Það gekk mjög vel, enda tók barnið við öllu sem að kjafti kom.

Það mátti aldrei bregða útaf vananum, því það gæti skemmt svefnrútínuna hans, þá yrði hann ómögulegur. Mitt mat, það lét samt aldrei reyna á það skiljiði. Barnið hefur svo alla tíð sofið í sínu rúmi, það þarf jú að kenna börnum að sofna sjálf og í sínu rúmi.

Nú svo fæddist yngra barnið. Ehm. Já. Hún eiginlega bara svona fylgir með. Hún er reyndar á við tíu börn, en ég meina. Það kom ekki rútína á svefninn hjá henni fyrr en hún byrjaði í dagvistun minnir mig, ég spáði svo lítið í það að ég man það ekki alveg? Hún hefur svo bara sofið á þeim tíma dags sem hentar hverju sinni, en hún er ekki týpan sem sofnar í kerru þegar við erum á ferðinni. Ekki fræðilegur.

Hún var á brjósti til 1 árs, nánast eingöngu. Þegar hún loks fór að borða lét hún ekki bjóða sér hvað sem er, þannig ég fór auðveldu leiðina og leyfði henni að ráða ferðinni. En ég man reyndar ekki hvað hún borðaði þarna milli 1-2 ára, ég bauð henni allt mögulegt. Svo kom þetta bara. Núna borðar hún flest allt, ekki alveg allt, en þó flest.

Sefur barnið í sínu rúmi? Tjah, svona helminginn af nóttunni, er það ekki nóg? Hún kemur uppí á hverri nóttu og mér dettur ekki í hug að reyna breyta því. Nema þá kannski færa rúmið hennar inn til okkar svo ég þurfi ekki að hlaupa þvert yfir íbúðina að sækja sængina hennar á nóttunni? Pabbi hennar hins vegar þvertók fyrir það. Ég skil ekkert í honum að vilja ekki færa 2,5 árs gamalt barn aftur inn í herbergi foreldra sinna? Hann er reyndar orðin stressaða týpan af okkur tveimur, börnin mega varla hósta í svefni, þá hleypur hann og athugar hvort það sé í lagi með þau.

En þó börnin okkar hafi fengið svona mismunandi umönnun sem ungabörn þá eru þau bæði bara mjög vel heppnuð. Þannig þetta hefur ekki komið að sök. Ekki ennþá að minnsta kosti. Sjáum til, ég bíð spennt!

14915386_10211174787584652_4402657916124750078_n

 

Facebook Comments