Fullkomin mamma?

Fullkomin mamma?

Vinkona mín lenti í skemmtilegu atviki í sumar sem mig langar að deila með ykkur.

Hún var stödd með árs gamlan son sinn hjá Sýslumanninum í Kópavogi að bíða eftir afgreiðslu fyrir endurnýjun á vegabréfi. Eins og kannski flestir vita er biðin hjá Sýslumanninum oft ekkert grín, sérstaklega ekki á sumrin. Þau mæðgin voru búin að bíða í dágóða stund þegar þau fengu loksins sæti. Vinkona mín sat undir syni sínum sem var orðinn þreyttur á biðinni og var í miðri tanntöku (með tilheyrandi pirringi) í ofanálag. Þegar hún sér ekki framm á að þau séu að fara neitt í bráð dregur hún fram símann sinn, kveikir á YouTube og réttir honum.
Í kjölfarið gefur fullorðin kona sig á tal við hana og segir eitthvað á þessa leið „Þessir símar eru nú meiri snilldin!“. Vinkonan fer strax að afsaka sig og son sinn, viðbúin því að fá ræðuna um hversu óholl farsímanotkun barna sé, en áður en hún nær að klára afsökunarræðuna greip konan fram í fyrir henni og sagði „Veistu! Ég var fullkomin mamma þangað til ég eignaðist barn sjálf“.

gratur2

Það er nefnilega þannig, þegar maður er foreldri þarf maður að velja sér orustur. Það er mikið til í orðunum hjá þessari konu. Það er svo auðvelt að sitja og dæma aðra, en maður myndi kannski ekki takast á við aðstæðurnar neitt öðruvísi ef maður væri staddur í þeim sjálfur. Hvort sem það á við um að rétta barninu síma eða láta undan og kaupa kókómjólkina í búðinni. Hættum að dæma hvort annað, það eru allir að gera sitt besta.
….Og það er svo ótrúlega auðvelt að vera fullkomin mamma þegar maður á ekki barn.

undirskrift

Facebook Comments
Bára Ragnhildardóttir

Bára er 31 árs, er trúlofuð Richard Ottó O'Brien og saman eiga þau Ragnhildi Söru 3 ára og chihuahua hundinn Ronju. Bára vinnur sem verkefnastjóri og áhugamálin hennar eru allt sem viðkemur barnauppeldi, innanhúshönnun og heimilinu, DIY verkefnum og tísku