Ert þú styrkaraðili að líkamsræktarkorti?

Ert þú styrkaraðili að líkamsræktarkorti?

Ég hef verið sterkur styrktaraðili margra líkamsræktarstöðva í gegnum árin, ég byrja af fullum krafti og tveimur mánuðum seinna er ég hætt að mæta en að hugsa alltaf;  “ég verð að fara drífa mig” og fyrr en varir eru liðnir nokkrir mánuðir og alltaf greiðir heimabankinn samviskusamlega í líkamsræktarstöðina. Hverjum er það að kenna? Jú, bara sjálfri mér, peningurinn sem ég hef í gegnum árin eytt í það að vera í áskriftarleið gæti ég líklega keypt mér nýjan bíl fyrir!  Eða allavega svona nýlegri.

 

En þegar dagurinn kom sem ég sagði, “núna ætla ég að mæta því mér finnst gaman að hreyfa mig” , það er til  allskonar hreyfing sem hægt er að stunda, það þarf ekki endilega að vera líkamsræktarkort og mæta í ræktina.

 

En núna er ég búin að vera meðlimur í líkamsrækt í  eitt ár og sex mánuði og ég er búin að mæta! Ja hérna hér! Og mikið líður mér vel! Stór partur af því að ég loksins fór að mæta og gafst ekki upp, var að ég byrjaði hægt. Ég mætti alla daga en ég var ekki að gera æfingar þar sem ég var að sprengja mig, því ég var ekki með líkamlegt úthald í það. Hægt og rólega vann ég upp þolið og líka sjálfstraustið, því sjálfstraustið þegar ég labbaði inn fyrst var ekki mikið. Ég var alltaf í stórum hettupeysum til  að fela bæði hvernig ég leit út og líka hvernig mér leið sem gerðu æfingar erfiðar og heitar, en fljótlega gerði ég mér grein fyrir því að enginn var að spá í mér og mér leið betur og betur að æfa þarna, starfsfólk og aðrir voru vinalegir og andrúmsloftið gott.

Eitt sem ég komst að eftir að hafa verið í ræktinni í nokkra mánuði – OPNIR TÍMAR – í líkamsræktarstöðvum eru SNILLD! Að mæta í tíma eins oft í viku og þú vilt og getur og prufa sig áfram er frábær möguleiki.  Sumir kennarar henta manni eins og hanski á hönd og maður fer spenntur inn í vikuna af eftirvæntingu að fara í tíma hjá þessum kennara á meðan aðrir eru kannski eru ekki að peppa mann jafn mikið. Og snilldin við það ef þér líkar ekki einhver kennari eða tími, þá ertu ekki bundin að mæta aftur í þennan tíma! Þú getur bara mætt í annan tíma hjá öðrum kennara og það kostar…ekkert aukalega, bara mánaðargjaldið!

Ég fann mitt æði; Spinning! Þegar ég labbaði inn í Reebokfitness með mín 135 kg, hélt ég að spinning væri ekki neitt sem ég myndi verða æst að skrá mig í , en jújú ég bíð spennt eftir að það opni fyrir skráningu í tímana; “coach by color” og hef það sem viðmið inn í vikuna að fara einu sinni til tvisvar í þessa tíma í hverri viku. Ég fer oftast í tíma hja Júlíönu sem kennir í Reebokfitness á Tjarnarvöllum og mér finnst sérstaklega gaman að mæta laugardagsmorgnum (stelpan mín fer glöð í gæsluna) meðan ég hjóla mig sveitta inn í helgina.

 

 

 Ef þú ert styrkaraðili að líkamsræktarkorti – hérna er áskorun á þig!

 

Markmið fyrir komandi viku:

Mættu í einn tíma og ef þú vilt ekki mæta í opin tíma og vilt fara í tækjasalinn en ert ekki með öryggið í það, eða veist ekki hvar á að byrja, þá er hægt að bóka kennslu tíma hjá líkamsræktarstöðvunum 🙂

 

Hægt er að fylgjast með mér á instagram – adventuresofus2 

 

 

 

 

Facebook Comments