Er ég móðursjúk sem foreldri?

Er ég móðursjúk sem foreldri?

Áður en ég eignaðist barn gerði ég mér enga grein fyrir tilfinningunum sem ég ætti eftir að bera til barnsins míns.

Ég skildi ekki alltaf móðursýkina í foreldrum mínum ef ég var til dæmis að keyra ein milli Húsavíkur og Reykjavíkur og þau vildu að ég mundi láta vita af mér á leiðinni og um leið og ég væri komin á áfangastað. Það var alveg sama þó það væri um miðja nótt þá átti ég að hringja og láta vita af mér.

Eitt skiptið þegar við vinkona mín vorum á fermingaraldri ákváðum við að skella okkur niður í fjöru í brjáluðum öldugangi. Þar stóðum við á stein og létum ölduna skella yfir okkur og fannst mjög gaman. Þegar við komum heim rennblautar og kátar sögðum við foreldrum okkar ástæðuna fyrir því að við værum svona blautar, ég hélt hreinlega að hjörtu þeirra mundu stoppa.

Eins þegar ég ákvað að fara með vinkonu minni á þjóðhátið þegar við værum orðnar 18 ára. Þá skildi ég ekki hvaða stress þetta væri í mömmu, það munaði litlu að hún færi bara með og pabbi líka. Mamma vildi helst að ég væri í sundbol undir fötunum mínum alla þjóðhátíðina, hvað sem það átti nú að gera.

Núna nokkrum árum seinna er ég sjálf orðin foreldri, ég á litla stelpu sem varð eins árs í júlí. Ég er nokkuð viss um að ég taki móðursýkina á næsta level. Ég get nefnt nokkur dæmi, ansi mörg dæmi eiginlega.

  • Þegar henni svelgdist ansi vel á í baðinu, það fyrsta sem ég gerði þegar hún sofnaði um kvöldið var að googla 2. stigs drukknun, það sem eftir var kvölsins fór ég inn í herbergið hennar til að gá að henni á nokkurra mínútna fresti þar til ég lagðist inn til hennar (þrátt fyrir að vera með Angel care barnapíutæki).
  • Þegar hún datt á hnakkann aðeins nokkurra mánaða gömul og ældi stuttu eftir það. Ég fór með hana niður á barnaspítala um leið því ég var svo hrædd um að hún hefði fengið heilahristing.
  • Þegar hún fékk mislingabróðir og var með mjög háan hita á nóttunni í einhverja daga, ég vakti yfir henni því ég var svo hrædd um að hún fengi hitakrampa.
  • Þegar það kom ein bóla á magann hennar og ég var búin að googla hlaupabólu áður en ég vissi af.
  • Þegar hún fær ælupest og ég hef stöðugar áhyggjur af því að hún þorni upp.
  • Ég ætla ekki einu sinni að ræða ungbarnadauðann en ég þakka guði fyrir að Angel care sé til!
  • Þegar ég stoppaði bílinn þegar ég var að keyra með hana því ég var ekki örugg um það hvort ég hafi ekki örugglega fest hana nógu vel.
  • Öll skiptin sem hún er sofandi og ég legg hendina á hana til að vera viss um að hún sé að anda.

Hvernig verður þetta þegar hún eldist?

Ég gæti eflaust talið upp endalaust. Málið er að hún er það dýrmæstasta sem ég á, tilhugsunin ein við það að geta misst hana er óbærileg. Kannski er þetta bara eðlilegt, kannski eru allir foreldrar svona. En ofsalega skil ég vel núna af hverju foreldrar mínir voru svona móðursjúkir, kannski er þetta bara alls engin móðursýki þegar á hólminn er komið.

Þegar Anna Hrafnhildur var nýfædd fór ég á skyndihjálparnámskeið sem einblíndi á börn.  Ég gerði mér enga grein fyrir því hvað það er margt sem þarf að huga að þegar það er komið barn á heimilið. Allar slysahætturnar sem ég hafði ekki hugmynd um að væru á heimilinu. Eins hvað ég sjálf þyrfti að geta gert ef barnið mitt myndi til dæmis hætta að anda. Ég kom út af námskeiðinu í hálfgerðu áfalli, því mig hefði ekki órað fyrir hvað ég var með litla þekkingu á þessum hlutum. Ég hvet alla foreldra til að fara á svona námskeið, líka þá sem eru ekki foreldrar því þetta er jú nauðsynleg þekking fyrir okkur öll.

sylvia

Facebook Comments
Sylvía Haukdal Bryjnarsdóttir

Sylvía er 31 árs, gift Atla Björgvinssyni og saman eiga þau Önnu Hrafnhildi og Marín Helgu. Sylvía er menntaður pastry chef út Le Cordon Bleu og vinnur í Sætum Syndum. Hennar helstu áhugamál eru bakstur, ferðalög, snyrtivörur og útivera með fjölskyldunni.