Eitt af því sem gleymdist að nefna!

Eitt af því sem gleymdist að nefna!

Mér finnst svo ótal margir hlutir í sambandi við eftir-fæðingu sem konur vita almennt ekki, hvort sem það snýst að okkur sjálfum eða nýfæddu börnunum okkar.

Eitt af þessu er að vöðvarnir í kringum kynfærin teygjast, mýkjast og slakna almennt!

Þegar ég varð ófrísk var ég í mínu besta líkamlega formi, ég var svo heppin að geta æft alla meðgönguna og var heilsuhraust. Ég stundaði crossfit og var alltaf með stefnuna á að halda því áfram eftir fæðingu, sem að ég og gerði…og geri enn.

Hvað er ég þá að væla?

Jú, ég nefnilega pissa á mig á hverri einustu helv** æfingu!

Já, ég sagði það!

Á fæðingardeildinni í útskriftarviðtalinu var mikilvægi grindarbotnsæfinga nefnt, ég gerði og geri þær æfingar samviskusamlega og var grunlaus þegar ég mætti á mína fyrstu æfingu eftir fæðinguna. Ég hef kannski ekki valið bestu æfingarnar til að framkvæma mánuði eftir að hafa komið barni í heiminn, en ég fór í það skiptið grátandi heim..og ætlaði aldrei að æfa aftur.

Ég sagði við kærastann minn eftir þessa æfingu að ég ætlaði aldrei í ræktina aftur, ég gæti ekki látið fólk sjá þetta og að ég hlyti bara að vera eitthvað einsdæmi því að ég sæi aldrei konur á æfingu pissublautar í klofinu..

wod

Eftir að hafa jafnað mig aðeins og ákveðið að reyna aftur skundaði ég á æfingu með klofið fullt af innleggi af þykkustu gerð! Ég var sennilega jafn meðvituð um innleggið og ég var án þess með pissublautt klof.
Núna er barnið mitt að verða þriggja ára í febrúar nk. og það er ekki langt síðan að ég tók þá ákvörðun að hætta að láta þetta fara svona fyrir brjóstið á mér! Það er næstum því sama hvar þetta umræðuefni kemur upp, langflestar konur kannast við þetta með misrautt andlit og vandræðalegan svip á andlitinu..kannski ekki eins mikið og í mínu tilfelli, en kannast vissulega við ,,vandamálið”.

Þetta er nefnilega ekkert vandamál, þetta er einn af fylgifiskunum við að ganga með og koma barni í heiminn og ætti ekki að vera neitt til að skammast sín fyrir!

Í dag fer ég stolt á æfingu, vel kannski lit á buxum eftir því hvaða æfingar á að framkvæma og fer kát heim…sveitt og pissublaut!

undirskriftasta

Facebook Comments
Ásta Hermannsdóttir

Ásta er 32ja ára búsett á Húsavík í sambúð með Herði Inga en saman eiga þau einn son, Ríkharð Val tæplega 3ja ára ásamt Pug-hundinum Buddha. Er menntuð snyrti- og förðunarmeistari, lauk Bs prófi í næringarfræði árið 2014 og er að ljúka Ms gráðu í matvælafræði. Ásta hefur áhuga á öllu sem tengist húð- og snyrtivörum, heimilinu, uppskriftum og góðum mat, næringu og heilsu ásamt foreldrahlutverkinu.