Ég og flughræðslan!

Ég og flughræðslan!

 

Ég er að fara til London í næstu viku.

“Nú en gaman” eruð þið örugglega einhver að hugsa núna

en nei!

Ég hata að fljúga. Nei þið skiljið ekki , ég meina ég HATA að fljúga.

Ég hef ekki stigið fæti upp í flugvél síðan c.a 2003 án þess að vera handviss um að það verði mitt síðasta.

Til að toppa þetta þá þarf ég í innanlandsflug fyrst, þau eru þau allra verstu.

Pínu litlar vélar, langt síðan það var mannskætt slys síðast sem mér finnst auka líkurnar á að það verði ég sem lendi í næsta flugslysi til muna, ég þori varla að skrifa þessi orð því ég er svo hrædd um að “jinxa” þetta og á miðvikudaginn komi frétt á mbl.is :

 

“Spáði fyrir eigin dauða, hræddist það að fljúga og lést í flugslysi”

 

Ég veit ekki einu sinni hvar ég ætla að byrja né enda þessa færslu.

Ég er örugglega bara að skrifa hana til að öðlast hugsanlega mögulega vonandi smá sálarró.

Ég lagði örugglega upp með að gefa ykkur góð ráð við flughræðslu, en ég hef bara engin.

Nema að taka inn nokkrar sobril, fá sér hvítvínsglas og reyna að fara með eftirfarandi möntru:

“Tölfræðin sýnir að það að fljúga er öruggasti ferðamátinn, , flugmenn hafa farið í gegnum gríðarlega þjálfun og (gúgglar hversu lengi þú ert að læra að fljúga og kemst af því að það tekur ekki nema skitin 2 ár að klára 1500 flugtíma.) Guð minn góður, ég verð að hætta við , ég fékk bílprófið fyrir 9 árum síðan og er enn skítlélegur bilstjóri.

Mér finnst flugtakið næst verst, óttast árekstur við aðra vél eða að þegar við erum komin í x hæð að þá komi í ljós að innritunardaman misreiknaði sig og vélin er alltof þung og hún fer til baka eða að það fari fuglar í hreyfilinn og það kvikni í.

Lendinginn er samt verst , alltaf ALLTAF velti ég því fyrir mér hvort flugmennirnir séu dauðir frammí og hafi gleymt að hægja á sér, það bara geti ekki verið eðlilegt að við séum enn á 900.000000 km hraða en séum samt alveg að fara að lenda.

Eða þá að við náum ekki að hægja á okkur og “slædum” inn í flugstöðina.

Takið eftir því að ég segi “við” ég er nefnilega á bakvaktinni alla flugferðina fyrir mennina frammí, athuga hvort það sé brunalykt eða grunsamlegir farþegar um borð. Þeir geta sko treyst á mig.

Nefnið ókyrrð ekki ógrátandi. Ég æli úr stressi við minnstu hreyfingu og guð hjálpi mér þegar þeir kveikja á sætisbeltaljósinu.

“það er eitthvað sem þeir eru ekki að segja okkur, við erum að fara að hrapa og deyja og þeir vilja ekki segja okkur það” !

Svo er bara svo margir aðrir faktorar, er nóg eldsneyti á vélinni? Hvað er hún gömul? Er flugmaðurinn andlega stabíll? Hvenar var síðast athugað með hreyflana og allt þetta dót sem ég veit ekkert hvað heitir en ræður úrslitum um líf mitt?

Ég er líka helsti stuðningsmaður öryggisleitar á flugvöllum sem fyrirfinnst. Fara úr skónum? Minnsta málið!

Ég skal fara úr öllum fötunum og segja þér mín innstu leyndarmál, ef það hjálpar við að auka öryggi mitt!

Mér finnst að það eigi að fara að bjóða fólki eins og mér upp á svæfingu fyrir flug.

Mér finnst að það eigi að vera sjálfsögð aukaþjónusta sem er í boði, að flugfreyja læðist aftan að mér eftir að ég spenni beltið, með klóróform í tusku og haldi fyrir vitrin á mér þangað til ég dett út.

Svo vakna ég 3 tímum seinna í London, alsæl og vel úthvíld!

Skúli Mogensen, ef þú ert að lesa, þá held ég að þetta sé milljóndollara hugmynd!

Þið eruð líka svo flippuð hjá wow að það er pottþétt einhver af flugfreyjunum hjá þér til í þetta með tuskuna!

Það fer alltaf ákveðið verkferli í gang hjá mér áður en ég fer í flug

Fyrst held ég að þetta verði bara allt í lagi.

Svo fyllist feedið á youtube hjá mér af flugslysa myndböndum.

Þá ákveð ég að ég ætli ekki að fara í ferðina.

Svo ákveð ég að lífið sé ekki þess virði að lifa því ef þú ætlar að lifa því svona og fer.

Svo fer ég í ferðina og um leið og ég lendi í Keflavík hugsa ég að þetta sé nú ekkert mál.

Svo panta ég næstu ferð og hef skref 1.

Finnst ykkur ekki að ég ætti bara að sleppa því að fara?

Hef engann tíma til að skreppa til London núna, nóg að gera í skólanum og svona……..

Nú ef ég ákveð að fara, lumar þá ekki einhver ykkar á ráðum, hvernig komast megi yfir flughræðslu á 8 dögum?

 

Hendið því þá á meilið hjá mér solveig@ynjur.is

Þið megið líka bara senda mér á facebook, kommenta hér, hringja heim til mín, banka upp á

þygg allt!

 

Heyrumst ef ég lifi.

 

Facebook Comments
Sólveig Ása Arnarsdóttir

Sólveig Ása er fædd, uppalin og búsett á Húsavík ásamt unnusta sínum Davíð Þórólfssyni og dóttir þeirra Kristínu Hebu , fædd í apríl 2014. Í september 2015 fjárfestu þau í íbúð sem hefur síðan þá verið rifin niður í fokhelt og vinna þau nú hörðum höndum að því að byggja upp drauma heimilið. Hennar helstu áhugamál eru uppeldi ,heimili og hönnun og ferðalög til fjarlægra landa.