DIY: Marmarapáskaegg

DIY: Marmarapáskaegg

Ég á ekki mikið af páskaskrauti og er ekkert sérlega mikið fyrir að skreyta heimilið mitt en þegar ég sá marmarapáskaeggjaskraut á pinterest mátti ég til með að prufa! Passlega ekki skærgult og loðið, en samt mjög fallegt og mér finnast þau bara býsna páskaleg 🙂

Það var ótrúlega auðvelt að föndra þetta og tók ekki langa stund!

Það sem til þarf er:
Egg (ég notaði harðsoðin, það má líka blása úr ósoðnum)
Einnota hanskar
Pinni
Korkur og títuprjónar eða bökunarplata
Naglalakk/-lökk
Skál (helst plast sem má henda, þarf að vera það djúp að eggið komist á kaf)

Skref 1:
Setja volgt vatn (mikilvægt að það sé ekki kalt) í skál

Skref 2:
Láta naglalakk dropa ofan í vatnið, ég hristi það meira og fannst áferðin mjög skemmtileg af því..það kom meira lakk og liturinn varð dekkri á eggjunum.
Á þremur eggjum setti ég fyrst glimmerlakk og gerði svo aðra umferð með lit, mér fannst það koma vel út 🙂

Skref 3:
Um leið og lakkið er komið útí er gott að hræra lauslega í með priki til að mynda marmaraáferðina, og svo er egginu dýft á bólakaf ofan í vatnið. Þetta þarf að gerast frekar hratt og til að hylja allt eggið þarf að snúa því snöggt við.

Skref 4:
Eggið er tekið uppúr og leyft að þorna á bökunargrind eða 4 títuprjónum stungið í kork og lagt ofan á prjónana.

Ótrúlega einfalt föndur sem allir ættu að geta framkvæmt!

Góða helgi 🙂

Facebook Comments
Ásta Hermannsdóttir

Ásta er 32ja ára búsett á Húsavík í sambúð með Herði Inga en saman eiga þau einn son, Ríkharð Val tæplega 3ja ára ásamt Pug-hundinum Buddha. Er menntuð snyrti- og förðunarmeistari, lauk Bs prófi í næringarfræði árið 2014 og er að ljúka Ms gráðu í matvælafræði. Ásta hefur áhuga á öllu sem tengist húð- og snyrtivörum, heimilinu, uppskriftum og góðum mat, næringu og heilsu ásamt foreldrahlutverkinu.