Besta útgáfan af deginum í dag

Besta útgáfan af deginum í dag

Það má segja að okkur sé úthlutað spilum á hverjum degi. Í byrjun hvers dags erum við með ákveðin spil á hendi. Spil sem tákna þau verkefni sem þarf að leysa þann daginn. Sum spil eru leiðinlegri á meðan önnur eru alveg frábær. Svo lenda nokkur spil þarna einhvers staðar á milli sem geta verið tvíræð, það eru spilin sem við ákveðum hvernig við spilum úr. Það er undir okkur komið að spila þeim út á sem bestan hátt.

Með því að spila spilunum út á sem bestan máta erum við að gera það besta úr deginum okkar. Ég reyni að lifa eftir þessu. Það sem ég er að reyna segja er einfaldlega “Make the best out of it”.

Suma daga finnst okkur kannski eins og ekkert spilanna sé okkur í hag, þá getum við ímyndað okkur stafla af ,,lukkuspilum” sem hægt er að velja sér verkefni úr. Lukkuspilin geta táknað verkefni eins og að hringja í góða vinkonu, elda góðan mat, gera fínt innan heimilisins, kveikja á góðu ilmkerti, setja á sig maska, bjóða í kvöldkaffi, fara í göngutúr með einhverjum sem er manni kær eða henda sér í sófann með popp í skál – einfaldlega eitthvað sem gerir daginn betri. Oft snýst þetta nefnilega um litlu hlutina, þó það hafi verið skítt í vinnunni, manni hafi gengið illa í prófi eða það séu veikindi á heimilinu. Þá er alltaf hægt að krydda upp á hversdagsleikann með einhverju, það getur verið hvað sem er. Að hlusta á uppáhaldslagið sitt eða horfa á skemmtilega bíómynd getur gert kraftaverk.

Markmiðið ætti að vera að hafa daginn eins góðan og hægt er, þó aðstæður séu mismunandi hverju sinni. Að finna bestu útgáfuna af deginum í dag lætur manni líða vel. Ef það tekst ekki einn daginn, þá tekst það kannski betur næsta dag eða daginn þar á eftir. Lífið er ekki alltaf dans á rósum. En við viljum öll geta horft tilbaka og hugsað að við höfum gert okkar besta til að lifa skemmtilegu lífi. Hverdagsleikinn er jú lífið sjálft og það er hann sem skiptir mestu máli í stóra samhenginu.

Svo um leið og okkur sjálfum tekst að gera það besta úr deginum okkar hverju sinni, náum við að dreifa gleðinni. En það að gefa af sér er alveg ótrúlega mikilvægt, það er hins vegar efni í annan pistil. En það er alveg ótrúlegt hvað það gerir mikið að brosa og spjalla lítillega við fólk sem verður á vegi manns dags daglega. Bæði fyrir mann sjálfan og hinn aðilann. En allavega. Mergur málsins er: Make the best out of it!

14915386_10211174787584652_4402657916124750078_n

Facebook Comments