Barnið sem vildi ekki snuddu

Barnið sem vildi ekki snuddu

Ég hef rosalega oft heyrt setninguna “ekki taka snuðið með á fæðingardeildina því það getur skemmt fyrir brjóstagjöfinni”. Hvort sem þetta er úreld eða gild „regla“  var ég svo staðráðin í því að láta brjóstagjöfina ganga upp hjá okkur þegar litla stelpan mín kom í heiminn að hún fékk ekki að prófa snudduna strax.

Ég var búin að kaupa MAM snuddu fyrir 0-2 mánaða (af því mér fannst þær sætastar) og bjóst ekki við öðru en barnið myndi taka hana eins og eftir pöntun. Þegar brjóstagjöfin var komin í gang prófuðum við snudduna. En eins og með svo margt annað tengt barneignum komst ég að því að það er sjaldnast ég sem stjórna ferðinni og dóttir mín vildi ekki sjá þessa snuddu! Við reyndum að vera þolinmóð og prófuðum reglulega að bjóða henni snuðið, bæði í rólegheitum og þegar hún var önug. Við prófuðum að setja vatnsdropa á snudduna og brjóstamjólk en ekkert virkaði, alltaf ullaði hún þessu út úr sér og kúgaðist ef við reyndum að halda við snuðið. Í örfá skipti saug hún snuðið og það varð til þess að ég neitaði að gefast upp.

Ljósmóðirin sem var hjá okkur í heimavitjun fyrst eftir fæðinguna kenndi okkur nokkur „leynitrix“ til að róa barnið ef hún tæki trylling. Eitt af þeim var að þvo sér vel um hendurnar og bjóða barninu að sjúga litla fingurinn. Þetta var frábært fyrir pabbann sem ekki gat boðið barninu brjóst og ég varð öruggari að skreppa frá eða leggja mig því stelpan okkar elskaði þetta “leynitrix“ sem var auðvitað bara notað í undantekningartilfellum en svínvirkaði.

Dagarnir og vikurnar liðu og aldrei vildi barnið taka MAM snuðið né aðrar tegundir sem við vorum búin að kaupa. Það virtist engu máli skipta hvernig snuðið var í laginu, hvort það var úr latex eða silíkon eða hvort það var fyrir eldri börn (sem ég var búin að lesa mig til um að gæti verið málið).

Ragnhildur Sara þurfti stundum aðstoð við að sofna, oftast sofnaði hún sjálf en svo komu kvöld sem við enduðum á því að bjóða henni fingurinn (leynitrixið) og þá sofnaði barnið á 5-10 sekúndum eins og í lygasögu. Þessi sogþörf sem hún hafði fór út í það að hún fattaði að setja upp í sig þumalputtann þegar hún varð þreytt. Það var þróun sem hentaði ekki okkur foreldrunum svo við fórum að setja sokka á hendurnar á henni og gáfum allt í botn í snudduþjálfuninni. (Við reiknuðum með að það væri mjög erfitt að venja hana af þumalputtanum þegar hún yrði eldri og tókum þessvegna fyrir það strax).

Í snudduþjálfuninni fór ég með Ragnhildi Söru í heimsókn til góðrar frænku sem er hokin af reynslu og þolinmæði þegar kemur að börnum og með sínum töframætti tókst henni að fá barnið til að taka gómlaga NUK snuð og ég vissi ekki hvert ég ætlaði af gleði ! …það var samt ekki alveg svo gott því ég gat bara látið barnið hafa snuðið í vissri stellingu og sú stelling var ekki liggjandi svo það kom ekki að gagni við svefninn. (Nema ég hefði flutt heim til frænku minnar)

EEEN svo urðu smá kaflaskipti rétt fyrir 3 mánaða afmælið! Við prófuðum enn eitt snuðið, það er frá Avent og heitir Soothie. Ljótasta snuð sem ég hef augum litið en á þessum tímapunkti var mér nákvæmlega sama um útlitið, bara ef barnið tæki snuð og einfaldaði með því lífið fyrir bæði sig og mig. Soothie var ekki til á Íslandi þá svo við pöntuðum það á Amazon. Snuðin komu inn um lúguna frá Ísrael einn mánudagsmorguninn rétt áður en Ragnhildur Sara fór út að sofa í vagninum. Ég flýtti mér að sjóða þau svo ég gæti prófað og viti menn, þetta var snuðIÐ !! Hún tók það strax og saug eins og hún hefði aldrei gert neitt annað. Ó þvílík hamingja !!

snud

Ástæða þess að ég er að deila þessari reynslusögu með ykkur er sú að ég póstaði því á sínum tíma á Facebook í smá fréttum af Ragnhildi Söru til vina og ættingja um að barnið væri byrjað að taka snuð og í kjölfarið fékk ég nokkrar spurningar um hvað „trixið“ væri. Það er ótrúlega gaman að segja frá því að Soothie snuðin hafa virkað fyrir fleiri sérvitringa en mitt barn.

Í dag er stelpan mín 17 mánaða og elskar ennþá snudduna sína (sem er fyrir aldurinn 0-3 mánaða).

snudda

Soothie snuðin er einnig hægt að fá með áföstum bangsa og þá heita þau WubbaNub, þau eru samt eins að öðru leiti. Soothie snuðin fást í Heimilistækjum, en WubbaNub í Húsgangaheimilinu.

Vert er að taka það fram að færslan er ekki kostuð á neinn hátt.

snuddan

 

undirskrift

Facebook Comments
Bára Ragnhildardóttir

Bára er 31 árs, er trúlofuð Richard Ottó O'Brien og saman eiga þau Ragnhildi Söru 3 ára og chihuahua hundinn Ronju. Bára vinnur sem verkefnastjóri og áhugamálin hennar eru allt sem viðkemur barnauppeldi, innanhúshönnun og heimilinu, DIY verkefnum og tísku