Það er einfaldara en margur heldur að undirbúa og elda fyrir þrírétta veislu.
Áramótin er eitt af þessum kvöldum sem margir bjóða til veislu og við Sólveig Ása tókum forskot á sæluna og þjófstörtuðum áramótunum og héldum ekta matarveislu og það kom okkur báðum verulega á óvart hversu lítið mál þetta var!
Við vorum tvær klukkustundir að undirbúa þrjá rétti:
Ostabruschetta í forrétt
Kalkúnn og meðlæti í aðalrétt
Súkkulaðimús í eftirrétt
Freyðivín og popp sem snakk í lok kvölds
Ostabruschetta fyrir 4
1 stór tómatur
Fersk basilika
1/2 Camembert ostur
1/2 Kryddostur
2 Hvítlauks baguette brauð
Aðferð: Tómatur, basilika og ostar skorið smátt og blandað saman í skál. Baguette brauðin bökuð í ofni og skorin svo niður, fyllingunni komið fyrir ofan á brauðunum eftir að þau koma úr ofninum og borið fram.
Með þessum rétti völdum við Marques Casa Concha Pinot Noir rauðvín




Kalkúnaveisla
Við notuðum skothelda uppskrift frá grgs.is sjá hér til að matreiða kalkúninn og vorum að auki með kjöthitamæli til að tryggja hárrétta eldun.
Meðlætið var mjög einfalt en það samanstóð af sykurbrúnuðum kartöflum, fersku salati , fyllingu og gamalsdags rjómalagaðri sósu!
Uppskrift af fyllingu fengum við hér
Við völdum Arthur Metz Pinot Gris hvítvín með kalkúninum og það passaði fullkomlega!






Súkkulaðimús fyrir 4-6
Þessi guðdómlega súkkulaðimús setti svo punktinn yfir i-ið! Hún er ótrúlega létt og passlega sæt á eftir kjötinu.
Við skömmtuðum í 4 skálar og allir hefðu getað fengið sér ábót.
Við bárum hana fram með ferskum rifsberjum og þeyttum rjóma.
Uppskrift:
Súkkulaðimús
100 gr. dökkt súkkulaði (70%)
1 lengja Rolo súkkulaði
35 gr. smjör
2 eggjarauður
2 eggjahvítur
2 msk sykur
1,5 dl rjómi
4 msk rjómalíkjör (ég notaði Joseph Cartron Cacao)
Skerið súkkulaðið,Rolo og smjörið í bita og bræðið yfir vatnsbaði. Takið af hitanum og hrærið eggjarauðurnar út í eina í einu og líkjörinn þar á eftir.
Stífþeytið eggjahvíturnar ásamt sykrinum og blandið þeim varlega út í eggjahræruna. Það er best að gera það með sleif eða sleikju. Þeytið að lokum rjómann og bætið honum við blönduna.
Músin þarf að stífna í ísskáp í 2-4 klst og það er upplagt að gera þessa daginn áður til að spara tíma!


Í lok kvölds buðum við svo uppá Tommasi Prosecco Filodora freyðivín og popp ásamt því að búa til smá myndavegg og gera nokkrar tilraunir til að ná sómasamlegum myndum 🙂
Skrautið sem við notuðum fæst hjá Minitrend, bæði veggskrautið, ártalið, rörin og poppskálarnar!

