Þarf alltaf að vera vín?

Þarf alltaf að vera vín?

Ég held ég geti sagt að það vilja allir foreldrar vera börnum sínum góðar fyrirmyndir. Við kennum þeim kurteisi, muninn á réttu og röngu, að bera virðingu fyrir öðrum og aðra viðeigandi hegðun. Við einfaldlega leiðbeinum þeim í gegnum æskuárin og kennum þeim á lífið.

En það er eitt sem mér finnst gleymast, oftar en ég kæri mig um allavega. Það er hvernig við íslendingar högum áfengisneyslu okkar. Börnin læra það sem fyrir þeim er haft.

Áfengi getur verið dauðans alvara og því ber að bera virðingu fyrir.

Það er á okkar ábyrgð að kenna krökkunum okkar að umgangast áfengi.

En ég hef þó tekið þann pól í hæðina að reyna vera góð fyrirmynd fyrir börnin mín, alltaf. Líka þegar ég fæ mér í glas. Ég er alin upp við það að vín með matnum sé eitthvað sem maður leyfir sér á föstudags- eða laugardagskvöldum með góðum mat. 1-2 glös, svo ekkert meir.

Flestir fara að finna lítillega á sér eftir 1-2 drykki. Þegar drykkirnir fjölga síðan, breytist hegðun einstaklingsins. Börn eru vön því að við hegðum okkur á ákveðinn máta, þau skynja fljótlega þegar við erum farin að haga okkur öðruvísi en við gerum venjulega. Barn sem getur ekki treyst á hegðun mömmu eða pabba hættir smám saman að treysta viðkomandi, en það getur valdið óöryggi hjá barninu.

Svo eru það ekki aðeins áhrifin sem áfengið veldur á meðan á drykkjunni stendur, heldur líka dagurinn eftir. Það á aldrei að ljúga að börnum að mamma sé ,,veik” eða að pabbi sé ,,þreyttur”. Börnin eiga skilið að vita sannleikann, því lygar valda óöryggi. Barnið áttar sig alltaf þegar á hólminn er komið.

Börn eru nefnilega ekkert vitlaus. Þau eru ekki gömul þegar þau átta sig á því hvað áfengi er og hvaða áhrifum það veldur. Ef við sýnum þeim hvernig best er að neyta áfengis og í hvaða magni, er líklegra að þau tileinki sér þá siði í framtíðinni.

Mergur málsins er:

Neytum áfengis eins og við mundum vilja að börnin okkar neyti þess í framtíðinni.

Það er svo annað mál hvað við gerum þegar börnin sjá ekki til og eru fjarri góðu gamni! 

 

14915386_10211174787584652_4402657916124750078_n

Facebook Comments