Afþreying fyrir börn: hrísgrjónakassi

Afþreying fyrir börn: hrísgrjónakassi

Eitt af því skemmtilegasta sem börnin mín gera er að fá að leika með hrísgrjón! Já það hljómar ekki mjög spennandi en ósoðin hrísgrjón er tilvalið leikefni – og flest börn elska að leika í þessu. Á mínu heimili leika börnin mín á bilinu 1-9 ára með þetta og finnst þetta öllum jafn skemmtilegt. Vissulega fer svolítið út um allt en ekkert sem sópur eða ryksuga getur ekki bjargað!
Mér datt svo í hug fyrir einhverju síðan að prófa að lita hrísgrjónin til að gera leiknn skemmtilegri. Það er líka hinn fínasti leikur að fá börnin til að hjálpa til við það, enda er það mjög einfalt.

 

Lituð leikhrísgrjón

2 bollar hrísgrjón (ég kaupi bara það ódýrasta í búðinni)
1 tsk edik
nokkrir dropar af matarlit

Allt sett í zip-lock poka og grjónunum velt í pokanum þar til lituð. Gott er að dreifa úr þeim á bökunarpappír eða í eldfast mót og leyfa þeim að þorna í 6-12 klst.

 

Svo er bara að finna til áhöld til að nota í hrísgrjónunum! Mér hefur þótt best að hafa færri heldur en fleiri. Mæliskeiðar og bollamál eru mjög vinsæl, glerkrukkur (heyrist svo skemmtilegt í þeim þegar hrísgrjónin fara ofan í), trekkt sem búa má til úr gosflöskum, lítil box og skálar.

Mér hefur þótt gott að leggja vaxdúk á gólfið þar sem verið er að leika með hrísgrjónakassann. Þá er auðvelt að hella af dúknum ofan í kassan þegar leikurinn er búinn. Svo er ekkert mál að sópa rest upp í fægiskóflu eða hreinlega ryksuga þetta upp. Líka mjög góður punktur að láta börnin vera í sokkum þegar þau leika í þessu…hrísgrjónin elska þvalar táslur og komast þá mun auðveldara um alla íbúð eftir að leik er lokið.

Svona er kassinn sem við notum. Hann er passlega djúpur og stór finnst mér. Hann er alls ekki fullur af hrísgrjónum, kannski fylltur til hálfs. Svo hef ég bætt út í hann hrísgrjónum þegar mér finnst vera að minnka í honum. Svo passar þessi líka fínt undir rúm og sófa svo það er mjög auðvelt að geyma hann þegar hann er ekki notkun.
Ekki mikla þetta fyrir ykkur. Þótt þetta sé smá subbuleikur þá er leikgleðin alveg þess virði – og 10 mínútna rólegheitin til að drekka heitan kaffibolla.

 

 

Facebook Comments
Ásdís Geirsdóttir

Ásdís er þrítug þriggja barna móðir og íslenskufræðingur, forfallin handavinnukona, ljósmyndari og ástríðubakari. Hún heldur úti netversluninni Rammagull.is ásamt RÓ heklvörum á Facebook.