Af hverju vill barnið mitt ekki borða?

Af hverju vill barnið mitt ekki borða?

Þegar að dóttir mín fæddist var ég ekki með miklar áhyggjur af brjóstagjöf, ég bjóst alveg við því að þetta myndi ekki ganga 100% strax en var staðráðin í því að láta þetta ganga. Hún átti erfitt með að taka brjóstið rétt og ég endaði með mikil sár sem endaði með því að ég notaði mexíkóhatt. Guð hvað það bjargaði lífi mínu næstu vikurnar!

Hún eins og svo mörg börn var ekki að þyngjast nógu hratt, þannig að á kvöldin var okkur ráðlagt að gefa henni ábót ef brjóstin væru orðin tóm. Ég prófaði allar tegundir pela en barnið vildi bara alls ekki sjá neinn af þeim. Þegar  hún var orðin um það bil 3 mánaða byrjaði hún að vera rosalega erfið á brjósti. Ég gat ekki setið og gefið henni að drekka sem endaði með því að ég labbaði um gólf með skrúfað frá vaskinum að hossa barninu meðan hún drakk. Seinna meir virkaði ekkert nema að leggjast upp í rúm með hana og leifa henni að liggja í rúminu meðan hún drakk brjóst. Sem betur fer fór hún að taka pelann annað slagið en bara ef hún lá sjálf en ekki í fangi.

Okkur var bent á að þetta gæti kannski verið bakflæði og prófuðum allskonar trix varðandi það en ekkert virkaði. Við fórum oft með hana til læknis eða spurðum í ungbarnaeftirlitinu en enginn virtist geta útskýrt af hverju það gengi svona illa að gefa henni að borða.

Þegar hún byrjaði að fá mat vorum við alveg viss um að nú myndi þetta lagast, en það skeði  nú heldur betur ekki. Hún fékkst til að borða nokkrar skeiðar en svo læsti hún munninum.  Við reyndum allan mat en ekkert virtist barnið vilja nema gulrótarmauk frá Nestle.

Þegar hún varð sex mánaða hætti hún alveg á brjósti og fékk bara mat og pela, samt aðallega pela. Mánuðirnir liðu og við foreldrarnir vonuðumst alltaf eftir að hlutirnir myndu breytast. Þegar hún fór að geta týnt uppí sig sjálf fór að fara aðeins meira uppí hana en svo virtist það minnka aftur.  Okkur var talin trú um það að sum börn myndu bara borða minna en önnur. Við vorum ekki alveg sannfærð en vorum að komast í þá áttina.

bordar6

Svo byrjaði hún hjá dagmömmu, yndislegri dagmömmu sem hafði áhyggjur eins og við og fannst þetta voða skrítið. Hún var að borða brota brot af því sem hin börnin á hennar aldri voru að borða.

Svo við ákváðum enn eina ferðina á leita til læknis og spyrja út í þetta. Við vorum ekki með miklar vonir um að þetta myndi skila árangri. Við hittum lækni á Domus medica sem heitir Viðar, ég sé án gríns manninn í guðatölu núna! Við vorum búin að vera hjá honum í 10 mín. útskýra hvernig þetta væri og væri búið að vera. Loksins kom einhver með uppástungu um eitthvað annað en að hún væri bara ein af þeim börnum sem borðaði lítið.  Honum fannst þetta líkjast magamígreni, ég vissi ekki einu sinni að það væri til. Í sameiningu var ákveðið að setja hana á lyf við því.

Í dag er hún búin að vera á þessum lyfjum í 2 mánuði, það liðu aðeins nokkrir dagar og barnið breyttist algjörlega. Hún fór að borða miklu meira, var augljóslega miklu glaðari og með miklu meiri orku.  Við erum svo hamingjusöm yfir því að loks hafi komist niðurstaða og að barninu okkar líði betur.

Af minni reynslu mæli ég með því að við fylgjum alltaf foreldrahjartanu, ef manni finnst eitthvað vera ekki rétt að hætta ekki að leita svara, þetta tók ár hjá okkur að fá greiningu og ég er svo glöð yfir því að hafa ekki hætt að leita.

bordar

sylvia

Facebook Comments
Sylvía Haukdal Bryjnarsdóttir

Sylvía er 31 árs, gift Atla Björgvinssyni og saman eiga þau Önnu Hrafnhildi og Marín Helgu. Sylvía er menntaður pastry chef út Le Cordon Bleu og vinnur í Sætum Syndum. Hennar helstu áhugamál eru bakstur, ferðalög, snyrtivörur og útivera með fjölskyldunni.