Æjh ohhh ertu búin að…

Æjh ohhh ertu búin að…

Það situr svo fast í mér atvik sem að átti sér stað á biðstofu þegar Anna Hrafnhildur var mánaðar gömul. Það var foreldri með barnið sitt sem var sennilega á milli eins og tveggja, barnið var búið að kúka og eins og flestir foreldrar vita að þá er þetta ekki beinlínis það skemmtilegasta sem við gerum að taka kúkableyjur. En hvernig foreldrið brást við stakk mig svo mikið, það sem foreldrið sagði var ” æjhh ohhh ertu búin að kúka núna?” barnið fór alveg í hnút og bakkaði frá og brást við með því að segja ”nei nei nei enginn kúkur” með skömm og tár í augum.  Foreldrið tók barnið í svona hálfgerðum pirring og fór með það inn á klósett.

Það sem ég fór að hugsa eftirá er að það skiptir svo máli hvernig við bregðumst við hlutum sem börn mega alls ekki skammast sín fyrir. Við viljum ekki að barnið okkar fari að halda í sér og reyna að kúka ekki eða finni alltaf fyrir þessari skömm þegar það þarf að kúka og verði smeyk við viðbrögð foreldra. Ég hafði aldrei pælt í þessu og fór svo að taka eftir fleiri tilvikum þar sem börnin fóru alveg í hnút því það kom svo oft þetta ”ohh”. Auðvitað er fullt af börnum sem finna fyrir einhverju skömm eða fara hjá sér þegar þau kúka án  þess að það sé eitthvað sem foreldrarnir geri vitlaust en það skiptir líka bara máli hvernig við bregðumst við hlutunum, einhverju sem okkur finnst svo saklaust og pælum ekki í gæti setið í börnunum okkar og haft varanlegar afleiðingar í framtíðinni.

Ég tók þetta allavega til mín og ákvað að passa vel uppá það hvernig ég myndi bregðast við þegar barnið mitt væri búið að kúka, eins bað ég ömmur og afa að hafa það líka í huga. Frekar að hrósa og segja barninu að það hafi verið duglegt og þá er það líklegra til að láta þig vita þegar það þarf að kúka eða er búið að kúka. Þetta er allavega mín reynsla og mér finnst þetta virka mjög vel.

Þessa dagana kíkir Anna á alla bangsa og dúkkur og gáir hvort að þau séu búin að kúka. Klappar oft lófum saman og biður mig um nýja bleyju á þau. Fyrir henni er þetta eðlilegasti hlutur og þannig á það að vera.

Facebook Comments
Sylvía Haukdal Bryjnarsdóttir

Sylvía er 31 árs, gift Atla Björgvinssyni og saman eiga þau Önnu Hrafnhildi og Marín Helgu. Sylvía er menntaður pastry chef út Le Cordon Bleu og vinnur í Sætum Syndum. Hennar helstu áhugamál eru bakstur, ferðalög, snyrtivörur og útivera með fjölskyldunni.