Aðsend grein: Brjóst á vergangi!

Aðsend grein: Brjóst á vergangi!

kidda

Kristbjörg Þórisdóttir er sálfræðingur sem eignaðist sitt fyrsta barn á árinu. Hana langaði til að skrifa um reynslu sína af brjóstagjafaráðgjöf sem bjargaði henni og syninum, en hefði auðveldlega getað endað illa!
Við gefum Kristbjörgu “orðið”:

Þegar ég eignaðist drenginn minn þá undirbjó ég mig undir það að brjóstagjöfin gæti orðið áskorun. Ég valdi mér meira að segja ljósmóður í mæðraeftirliti sem var brjóstagjafaráðgjafi til þess að tryggja mér ráðgjöf ef þörf yrði á. Ég hafði séð margar konur í kringum mig glíma við erfiðleika tengda brjóstagjöfinni og sumar þeirra höfðu lofað aðstoð brjóstagjafaráðgjafa á Landspítalanum.

Meðgangan og fæðingin í mínu tilfelli gengu eins og í sögu en ég reyndist sannspá varðandi brjóstagjöfina sem varð að krefjandi áskorun. Ég fékk mjög fljótlega sár á brjóstin með tilheyrandi sársauka og erfiðleikum. Fljótlega eftir það fór ég að hafa áhyggjur af sveppasýkingu þar sem ég sá merki um slíkt hjá okkur báðum. Ég nefndi það tvisvar í ungbarnaeftirlitinu en niðurstaðan var í bæði skiptin að ekki væri ástæða til að bregðast við. Ég hafði einnig samband við Landspítalann til að fá að koma þangað en var sagt að spítalinn veitti einungis þjónustu í alvarlegum tilfellum og var vísað á heilsugæsluna.

Staðan í heilsugæslunni var þannig að á þeirri fyrri sem ég nýtti þjónustu hjá var brjóstagjafaráðgjafinn ekki við vegna persónulegra ástæðna en í þeirri seinni var ekki brjóstagjafaráðgjafi til staðar. Ég fékk svo smávægilegar stíflur sem ég náði að leysa úr sjálf. Þar nýtti ég mér meðal annars síðu Stuðningskvenna um brjóstagjöf sem er að finna á fésbókinni. Þegar allt virtist vera að falla í eðlilegan farveg þá fékk ég slæma stíflu í annað brjóstið. Í kjölfarið fékk ég svæsna sýkingu. Ég nefndi þetta í eftirskoðun sem ég fór í hjá kvensjúkdómalækni á stofu sem sagði mér að ráðið væri að mjólka mig en skoðaði ekki brjóstin. Í sömu viku fór ég í skoðun í tengslum við ungbarnaeftirlitið og var sett á sýklalyf. Því miður var ég sett á of vægan skammt því viku síðar blossaði sýkingin upp aftur.

Sársaukinn sem fylgdi brjóstagjöfinni var svo mikill að ég þurfti að aftengja mig og sjá fyrir mér ákveðna ímynd tengda syni mínum (hann 3 ára að leika sér með bolta) í huganum til að komast í gegnum gjöfina. Þegar ég var komin með mjög mikil einkenni og gat varla sofið fyrir verkjum hafði ég samband við kvennadeild Landspítalans sem ætlaði fyrst að vísa mér frá á heilsugæsluna en eftir að ég útskýrði mál mitt fékk ég leyfi til þess að koma þann dag. Þar fékk ég skoðun, greiningu og viðeigandi meðferð sem náði yfir 8 göngudeildarkomur á spítalann. Það þurfti að stinga sex sinnum á brjóstið þar sem kominn var stór sýkingarpollur (abcess) í það. Ég var orðin svo slæm að ef ég hefði ekki komist að á þessum tímapunkti hefði getað farið illa. Brjóstið hefði getað sprungið og ég var líklega mjög skammt frá innlögn með tilheyrandi raski fyrir son minn og fjölskylduna svo ekki sé talað um aukinn kostnað fyrir heilbrigðiskerfið. Það er skemmst frá því að segja að sérfræðingarnir á Landspítalanum björguðu brjóstagjöfinni minni og heilsunni með mikilli fagmennsku og góðri þjónustu. Að öðrum ólöstuðum vil ég nefna sérstaklega Brynju og Aðalbjörgu sérfræðinga í því samhengi.

Það sem ég velti fyrir mér í kjölfar þessarar persónulegu reynslu er að of víða er pottur brotinn í brjóstagjafaráðgjöf og þjónustu vegna veikinda kvenna í tengslum við brjóstagjöf. Ég upplifði það að brjóst væru á vergangi í heilbrigðiskerfinu. Meðal annars kom í ljós að sú brjóstagjafaráðgjöf sem áður var boðið upp á var horfin eftir niðurskurð síðustu ára. Þetta er slæmt og ekki í samræmi við það að alls staðar er mælt með móðurmjólk sem fyrsta valkosti við næringu hvítvoðungsins og allt til sex mánaða aldurs og áfram eftir þörfum. Vandinn er meðal annars fólginn í vanþekkingu fagaðila sem koma að konum, meðal annars í heilsugæslunni og hjá sérfræðingum á stofu. Ég tel það vel skiljanlegt þar sem þessi heilsufarsvandi er sérhæfður og enginn getur verið góður í öllu. Ég tel að auka þurfi fræðslu fagfólks sem hittir nýbakaðar mæður svo það geti betur greint vandann og veitt rétta meðferð strax til að fyrirbyggja alvarlegan vanda. Einnig þarf að auka aðgengi að sérhæfðri þjónustu þegar vandinn er þess eðlis.

Ég sé fyrir mér brjóstagjafamiðstöð sem yrði staðsett á Landspítalanum. Hana myndu skipa sérfræðingar í vandamálum tengdum brjóstagjöf. Starfsfólk brjóstagjafamiðstöðvar væri í nánu samstarfi við aðra fagaðila í heilbrigðiskerfinu meðal annars til að fræða og veita handleiðslu. Að auki yrði aðgengi kvenna sem þarfnast þessarar þjónustu stórbætt þannig að strax væri veitt viðeigandi meðferð þegar við á.

Nýlega sá ég frétt um að Landspítalinn sé að áætla 20 milljónir í brjóstagjafamiðstöð. Ég vona að ég hafi skilið þetta rétt og fagna ef svo er. Ég skora á stjórnendur Landspítalans og aðra stjórnendur heilbrigðisþjónustu í landinu að fylgja þessu verkefni vel eftir og tryggja að fjölskyldur hafi aðgengi að bestu mögulegu þjónustu vegna brjóstagjafar bæði í sínu nærumhverfi og á Landspítalanum. Þannig komum við í veg fyrir það að nýbakaðar mæður eins og ég upplifi sig og brjóstin sín á vergangi í heilbrigðiskerfinu. Þannig vinnum við einnig að mikilvægri forvörn – að stuðla að því að börnin okkar fái móðurmjólk sem lengst sem er besta næring sem þau geta fengið og byggir grunn að góðri framtíð þeirra.

Takk Kristbjörg fyrir að deila þessu með okkur!

logo

Facebook Comments
Ásta Hermannsdóttir

Ásta er 32ja ára búsett á Húsavík í sambúð með Herði Inga en saman eiga þau einn son, Ríkharð Val tæplega 3ja ára ásamt Pug-hundinum Buddha. Er menntuð snyrti- og förðunarmeistari, lauk Bs prófi í næringarfræði árið 2014 og er að ljúka Ms gráðu í matvælafræði. Ásta hefur áhuga á öllu sem tengist húð- og snyrtivörum, heimilinu, uppskriftum og góðum mat, næringu og heilsu ásamt foreldrahlutverkinu.