Að velja sér baráttur við börnin!

Að velja sér baráttur við börnin!

Að vera foreldri skiptast á góðir tímar og slæmir tímar. Uppeldi eru mörg tímabil og ég er búin að læra það að það er ekkert fast í hendi í þessi hlutverki!

Sonur minn, sem er að verða 3ja ára í febrúar hefur alltaf verið ótrúlega ljúfur og góður drengur. Við áttum svolítið erfitt tímabil þegar ég var mikið að heiman vegna skólans og hann glímdi við aðskilnaðarkvíða sem við unnum markvisst í að laga.
Undanfarnar vikur hefur meira borið á því að okkur kemur ekki saman, hann “tuddast” mikið í mér (sérstaklega mér) og passar sig á að segja alltaf nei þegar hann getur, dregur hlutina og reynir á þolinmæðisblöðru móður sinnar!

rvh1


Ég fann að þetta kom yfirleitt alltaf upp í sömu aðstæðunum, þegar ég bannaði honum eitthvað eða hann spurði hvort hann mætti og ég svaraði alltaf nei, og nei-ið var oft á tíðum algjörlega óþarft en hugsanlega ætlaði ég að spara mér tíma með gera hlutina sjálf eða nenna ekki að aðstoða hann við að brasast eitthvað.

Ég ákvað svo eftir nokkrar vikur af togstreitu á milli okkar að fara í sjálfsskoðun á mér og komst að einni mikilvægri niðurstöðu. Ég var mjög oft að segja nei, þegar það þurfti ekkert að segja nei og ÉG var að valda óþarfa “rifrildum” á milli okkar mæðgina, að auki var ég að taka af honum sjálfstæði og að leyfa honum að spreyta sig á hlutunum og læra.

***

Í staðin fyrir að eyða allri þessari orku í að segja alltaf nei þá vel ég mér slagina núna. Ég kalla þetta slag vegna þess að stundum er þetta slagur! Ég held mig fast við að halda t.d. morgunrútínu og kvöldrútínu í föstum skorðum og beygi mig hvergi þar.
Ef Ríkharð Val langar hins vegar að sulla á baðgólfið eða sprauta með vatnsbyssunni sinni útá gang, þá bara fær hann það 🙂 Við eigum dásamlegar stundir þegar hann fer í bað, ég sit og horfi á, hann sprauta á mig,gólfið,veggina og útá gang, skellihlær og finnst geggjað gaman! Fyrir nokkrum vikum hefði ég bannað þetta sull (af því ég nennti ekki að þurrka eftir það) og baðferðin var alltaf leiðinleg.
Ef Ríkharð Val langar að fara með spiderman grímuna sína á leikskólann þá bara fær hann það, það veitir honum ánægju og svo geymum við hana bara í hólfinu á meðan hann er í leikskólanum og fær hana í lok dags.
Ef Ríkharð Valur er öfugsnúinn og vill fara í bolnum öfugum eða sitthvorum sokknum þá nenni ég ekki lengur að segja nei 🙂

rvh

***

Pointið mitt með þessu er að við getum stundum minnkað “óþekktina” og “tuðið” í börnunum okkar einfaldlega með því að leyfa stundum eða segja já þegar við getum 🙂
Ég hef klárlega þurft að þurrka upp aðeins meiri bleytu og nokkrir horft á okkur mægðin brosandi á leiðinni í leikskólann, en barnið mitt er hamingjusamt og þá er ég hamingjusöm!

undirskrift

Facebook Comments
Ásta Hermannsdóttir

Ásta er 32ja ára búsett á Húsavík í sambúð með Herði Inga en saman eiga þau einn son, Ríkharð Val tæplega 3ja ára ásamt Pug-hundinum Buddha. Er menntuð snyrti- og förðunarmeistari, lauk Bs prófi í næringarfræði árið 2014 og er að ljúka Ms gráðu í matvælafræði. Ásta hefur áhuga á öllu sem tengist húð- og snyrtivörum, heimilinu, uppskriftum og góðum mat, næringu og heilsu ásamt foreldrahlutverkinu.