5 húsráð sem klikka ekki

5 húsráð sem klikka ekki

Ég hef einstaklega gaman af öllu sem viðkemur heimilinu og þar með talið þrifum. Fljótleg og auðveld þrif er eitthvað sem ég dýrka og því langar mig að deila með ykkur nokkrum skotheldum húsráðum til að þrífa hitt og þetta innan veggja heimilisins.

Þrífa innan úr kaffikönnu

Mig langar að deila með ykkur mjög einfaldri og fljótlegri leið til að þrífa innan úr kaffikönnu. Maður einfaldlega setur smá gróft salt í könnuna ásamt smá vatni (ég er ekki góð í hlutföllum en ca 1 msk salt og 1/2 dl-1dl vatn), skrúfar lokið á og hristir eins og enginn sé morgundagurinn. Kaffikannan verður eins og ný!

grand-cru-thermos-dusty-grey-384773

Þrífa örbylgjuofninn

Þetta hef ég notað óteljandi oft! Settu vatn í hitaþolna skál ásamt nokkrum sneiðum af sítrónu eða nokkrum sítrónudropum. Settu skálina í örbylgjuofninn og hitaðu í 4-5 mínútur á hæðsta hita. Ekki opna örbylgjuofninn um leið og hann er búinn heldur er mjög mikilvægt að leyfa gufunni sem kemur af sítrónuvatninu að vinna á fitunni og matarleifunum. Mér finnst fínt að miða við 5-7 mínútur. Taktu skálina út og strjúktu innan úr örbylgjuofninum með blautri tusku. Þetta er líka hægt að nota til að þrífa bakaraofninn! Ekki skemmir hvað lyktin íbúðinni verður dásamleg eftir þetta.

Eyða vondri lykt úr uppþvottavél

Reglulega kaupi ég sérstakan uppþvottavélahreinsi til að hreinsa uppþvottavélina en stundum festist einhver lykt í uppþvottavélinni. Þá finnst mér gott að skella einum tappa af ediki með í vélinni þegar ég læt hana þvo leirtauið. Ég hreinlega skvetti einum tappa af ediki inn í vélina, eftir að ég set óhreina leirtauið í hana, og læt hana svo þvo. Það hefur líka reynst mér vel að setja glas með ediki inn í hreina vél, loka henni og láta standa yfir nótt.

home-cleaning-vinegar-today-160208-stock-tease_a651256bc874456913f7d61a6b96cd2f-today-inline-large

Glansandi bað og vaskur

Til að fá ekta og flottan gljáa á baðið og baðvaskinn er snilld að setja smá edik í tusku og strjúka yfir eftir að baðið og vaskurinn hafa verið þrifinn.

traditional-bathtubs

Lyklaborðið á tölvunni

Settu nælonsokk yfir ryksugustútinn og ryksugaðu lyklaboðið á tölvunni þinni. Settu edik í tusku og strjúktu yfir lyklaboðið. Ótrúlegt hvað það gleymist að þrífa hlut sem maður notar svo mikið!

Ég vona að þetta hafi orðið að einhverju gagni.

Er ekki tilvalið að skella sér í smá þrif svona fyrir jólin? 🙂

14632979_10211174788304670_3255155065553971427_n

Facebook Comments
Ásdís Geirsdóttir

Ásdís er þrítug þriggja barna móðir og íslenskufræðingur, forfallin handavinnukona, ljósmyndari og ástríðubakari. Hún heldur úti netversluninni Rammagull.is ásamt RÓ heklvörum á Facebook.