100 daga áskorunin mín!

100 daga áskorunin mín!

Ég elska að hreyfa mig og hugsa um heilsuna.

Nema í janúar!

Þegar blöð og internetið fyllast af auglýsingum um að nú verðum við öll að snúa við blaðinu og losna við hitt og þetta, samviskubitið-aukakílóin-jólakonfektið og passa í bikiníið ef maður skyldi nú ætla að voga sér á ströndina eða sundlaugarbakkann!

Hversu óþolandi árið 2017?

Ein útgáfan sem ég rakst á var 100 daga áskorun, jú mælt-vigtað og græjað á 20 daga fresti takk fyrir pent!

Áskorunin snérist að öllu leiti um hvernig viðkomandi lítur út eftir tímabilið og hversu mikið af hinu og þessu hefur verið misst.

Ég geri mér fulla grein fyrir hversu hættuleg ofþyngd og offita getur verið og er, ég geri mér líka grein fyrir að þessi mælitæki sem eru notuð, vigt-fituklípa og málband eru ágætis mælieiningar á einhvers konar árangur, en hvaða árangur?

100 daga áskorunin mín!

Mér veitir ekki af smá áskorun, en ég ætla alls ekki að taka þátt í þessari sem ég lýsti hér að ofan, mín verður með öðruvísi sniði.

Ég ætla að lifa 100 daga án þess að tala niður til líkama míns

Ég ætla að lifa 100 daga þar sem ég hrósa mér á hverjum degi

Í 100 daga ætla ég að setja mig í fyrsta sætið og “setja súrefnisgrímuna fyrst á sjálfa mig og svo á aðra”

Í 100 daga ætla ég að næra líkama minn eins og hann á skilið

Í 100 daga ætla ég að hreyfa mig með það markmið að efla stoðkerfi líkamans, bæta blóðflæði, pumpa hjarta og lungu, auka styrk og snerpu. Fyrst og fremst til að vellíðunarhormónin streymi og mér líði vel!

Eftir þessa 100 daga verða þessir hlutir vonandi allir komnir í vana og orðnir hugsunarlausir og sjálfsagðir.

Að lokum: Finnið ykkur þá hreyfingu sem veitir ykkur ánægju og þið hlakkið til að stunda! Ekki sóa tímanum ykkar í leiðinlega hreyfingu, það er fáránlega mikið í boði þarna úti og ekki nokkur þörf á að gera það sama og “allir” hinir 🙂

Vertu velkomið 2017!

undirskriftasta

Facebook Comments
Ásta Hermannsdóttir

Ásta er 32ja ára búsett á Húsavík í sambúð með Herði Inga en saman eiga þau einn son, Ríkharð Val tæplega 3ja ára ásamt Pug-hundinum Buddha. Er menntuð snyrti- og förðunarmeistari, lauk Bs prófi í næringarfræði árið 2014 og er að ljúka Ms gráðu í matvælafræði. Ásta hefur áhuga á öllu sem tengist húð- og snyrtivörum, heimilinu, uppskriftum og góðum mat, næringu og heilsu ásamt foreldrahlutverkinu.